Frumvarp um Vaðlaheiðargöng lagt fram

Akureyri. Vaðlaheiði í baksýn.
Akureyri. Vaðlaheiði í baksýn. www.mats.is

Frumvarp hefur verið lagt fram á Alþingi af fjármálaráðherra, Oddnýju G. Harðardóttur, þar sem gert er ráð fyrir því að þingið heimili ráðherra fyrir hönd ríkissjóðs að fjármagna
gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

Samkvæmt frumvarpinu er fjármálaráðherra gert heimilt að undirrita lánasamning við Vaðlaheiðargöng hf., sem er að 51% hlut í eigu Vegagerðarinnar, um lán til gangaframkvæmda fyrir allt að 8,7 milljarða króna miðað við verðlag í lok árs 2011.

Fram kemur í frumvarpinu að félagið sjálft, eignir þess og tekjustreymi, skuli vera fullnægjandi trygging fyrir láni. Þá skuli lánsfjárhæð greiðast félaginu í samræmi við framvindu verks og í samræmi við lánasamning.

„Ljóst er að áður en unnt er að samþykkja fyrirliggjandi tilboð í verkframkvæmdir við göngin þarf að liggja fyrir samningur um heildarfjármögnun þeirra,“ segir í meðfylgjandi athugasemdum við frumvarpið og ennfremur að ekki sé gert ráð fyrir öðrum tryggingum fyrir láninu en að ofan er getið.

Þá er ennfremur þess getið í athugasemdum að samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2012 sé gert ráð fyrir að því að heimilt sé að endurlána Vaðlaheiðargöngum hf. allt að 2 milljarða króna.

Frumvarpið í heild

Vaðlaheiðargöng.
Vaðlaheiðargöng. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert