Lögmaður Samherja segir að ekki hafi verið um að ræða sameiginlega aðgerð embættis Sérstaks saksóknara og gjaldeyriseftirlitsins þegar gjaldeyriseftirlit Seðlabanka Íslands gerði húsleit hjá fyrirtækinu á föstudaginn. Hann segir að nauðsynlegt sé að gjaldeyriseftirlit Seðlabankans geri opinberar ástæður húsleitarinnar og segir rangan fréttaflutning skaða fyrirtækið.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Helga Jóhannessyni, lögmanni Samherja.
„Þeir starfsmenn Sérstaks saksóknara sem komu í starfsstöðvar Samherja umræddan dag tóku sérstaklega fram að þeir væru í láni frá embætti Sérstaks saksóknara sem aðstoðarmenn, en húsleitin og haldlagning gagna væri alfarið á vegum gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands,“ segir í yfirlýsingunni, sem birtist á vefsíðu Samherja í kvöld.
„Því var haldið fram í ríkissjónvarpinu í kvöld að félagið sé grunað um skattalagabrot. Þetta er einnig rangt. Forsvarsmönnum fyrirtækisins hefur einungis verið kynnt með óljósum hætti að rannsókn beinist að hugsanlegu broti á gjaldeyrislögum. Það er ekki síst fyrir sögusagnir af þessu tagi, sem augljóslega eru mjög skaðlegar fyrir félagið, að nauðsynlegt er að gjaldeyriseftirlit Seðlabankans geri opinberar ástæður þeirrar harkalegu aðgerðar sem ráðist var í á starfsstöðum félagsins að morgni 27. mars sl.“
Yfirlýsingin á vefsíðu Samherja