Hinn heppni eigandi Víkingalottósmiða sem var með allar tölurnar réttar í síðasta útdrætti í Víkingalottóinu hefur gefið sig fram við Íslenska getspá. Hann keypti sér fimm raða sjálfvalsmiða í Olís við Glerá á Akureyri að upphæð 350 krónur. Þegar hann áttaði sig á því að þetta var vinningsmiðinn brá honum að vonum mikið. Þurfti fjölskyldan að fara oft yfir miðann áður en haft var samband við skrifstofu Íslenskrar getspár.
Vinningshafinn er fjölskyldumaður með uppkomin börn og segist hann ætla að láta alla fjölskylduna njóta góðs af – enda sé miðinn eign allrar fjölskyldunnar. Þetta er í tuttugasta skipti sem fyrsti vinningur í Víkingalottóinu kemur hingað til lands og stærsti vinningurinn til þessa í íslensku happdrætti eða 107.513.352 krónur skattfrjálst. Vinningshafanum er boðið í fjármálaráðgjöf og sendir starfsfólk Íslenskrar getspár honum innilegar hamingjuóskir með vinninginn, segir í tilkynningu frá Víkingalottóinu.