Greining á gögnum frá gervitunglum NOAA-stofnunarinnar í Bandaríkjunum sýnir að gróður hefur aukist hér á landi á undanförnum árum. Tunglin greina m.a. gróðurstuðul, sem er mælikvarði á blaðgrænu og grósku á yfirborði jarðar. Gögn frá tunglunum ná aftur til ársins 1982 og hafa þau verið notuð til að rannsaka langtímabreytingar á gróðri víða um lönd.
Náttúrufræðistofnun Íslands hefur unnið að greiningu á gögnum fyrir Ísland fyrir tímabilið 1982–2010. Fyrstu niðurstöður sýna að gróður hefur verið í sókn á Íslandi eins og margir hafa talið sig sjá merki um.
Þetta kemur fram í nýrri ársskýrslu Náttúrufræðistofnunar Íslands.
Við greininguna voru notuð gögn þar sem landinu öllu er skipt upp í 893 reiti, sem hver er 154 ferkílómetrar (12,4 x 12,4 km) að flatarmáli. Út frá gögnunum var unnið kort af landinu, sem sýnir reiknaða breytingu á lífmassa gróðurs.
Kortið sýnir að gróðurbreytingar eru mjög ólíkar eftir landshlutum. Mestar hafa þær orðið á vesturhluta landsins en minnstar á Norðausturlandi og Austurlandi.
Þegar einstök svæði eru skoðuð mælist mikil aukning á sunnanverðum Vestfjörðum, talsverð á Skaga og á húnvetnsku heiðunum.
Þá hefur gróður aukist víða á Snæfellsnesi og í Dölum. Einnig ofarlega í Borgarfirði og á hálendinu vestan og suðvestan Langjökuls, t.d. á Arnarvatnsheiði og á landi vestan Þórisjökuls.
Á Suðvesturlandi hefur gróður aukist mest á heiðunum suðvestur af Þingvallavatni og á norðanverðum Reykjanesskaga.
Annars staðar á landinu eru nokkur svæði, bæði á hálendi og láglendi, þar sem gróður virðist hafa aukist mikið. Breytingar koma t.d. fram á Tröllaskaga, Auðkúlu- og Eyvindarstaðaheiði, á hálendinu suðvestan við Kerlingarfjöll, ofan byggðar í Gnúpverjahreppi og ofarlega á Rangárvöllum.
Þá hefur gróður aukist verulega með suðurströndinni, einkum undir Eyjafjöllum, í Skaftafellssýslum bæði á heiðum og á láglendi, frá Vík í Mýrdal austur undir Síðujökul. Einnig við Skaftafell og víðar í Öræfum. Þá kemur fram talsverð aukning á gróðri við Snæfell.
Minni beit og hlýnandi veður
Líklegt er að aukningu gróðurs á landinu megi rekja til minnkandi búfjárbeitar, hlýnandi veðurfars og aukinnar landgræðslu og skógræktar, segir í ársskýrslu Náttúrufræðistofnunar.
Sennilegt er að fyrstu tveir þættirnir vegi þar þyngst. Áberandi mikla aukningu á gróðri á vestur-og suðurhluta landsins má líklega rekja til þess að þar er hlýrra og úrkomusamara en á norðausturhluta landsins.
Rannsóknir á gróðri hér á landi undanfarna áratugi hafa gefið sterkar vísbendingar um að land sé víða að gróa upp. Dæmi um það er mikil sjálfgræðsla á nokkrum stöðum á Hrunamannaafrétti í Árnessýslu en þar hefur land gróið upp síðustu þrjátíu árin á allstóru svæði suðvestur af eyðibýlinu Þórarinsstöðum sem fór í eyði í Heklugosinu 1104. Athuganir á þessum slóðum gefa til kynna verulega aukningu á gróðurþekju á moldum. Melar gróa hins vegar miklu hægar þótt þar megi einnig sjá talsverðar breytingar með tíma.