Búið er að grófhreinsa beinagrind steypireyðar sem rak á land á Skaga í ágústmánuði 2010 en á sínum tíma var veitt tveggja milljóna króna fjárveiting til bjarga henni og grófhreinsa.
Afar sjaldgæft er að heilar steypireyðar reki hér á land og var því lögð áhersla á að varðveita beinagrind hvalsins enda hefur hún mikið sýningar- og fræðslugildi.
„Við erum með beinin í bráðabirgðageymslu og erum að koma þeim núna í hús til tveggja til þriggja ára og byrja aðeins að forverja þau á meðan stjórnvöld taka ákvörðun um hvar þetta verður sett upp til sýnis,“ segir Guðmundur Guðmundsson, forstöðumaður safna- og flokkunarfræðideildar Náttúrufræðistofnunar Íslands.
Hann segir næstu skref vera að klára að forverja beinin og gera við skemmdir. Að því loknu er svo hægt að hefja undirbúning að uppsetningu. Þótt ekki sé búið að ákveða hvar beinagrind steypireyðarinnar verður sett upp er búið að taka ákvörðun um að klára að forverja beinin en það felur m.a. í sér að herða þau með sérstöku efnabaði.