Ýmsar tegundir fiska og fugla eru mikilvægasta fæða íslenska minksins samkvæmt niðurstöðum rannsóknar Rannveigar Magnúsdóttur og félaga á Náttúrustofu Vesturlands, Háskóla Íslands og Oxfordháskóla. Skoðað var hvernig fæðan var mismunandi eftir búsvæðum, árstíðum og kyni með því að greina innihald í maga 851 minks sem veiðimenn víða af landinu útveguðu til rannsókna. Þetta kemur fram í frétt á vef Náttúrustofu Vesturlands.
Fæðuval var mismunandi eftir því hvort um var að ræða mink við sjávarsíðuna eða við ferskvatn inn til landsins. Við sjóinn voru helstu fæðutegundir grunnsævis- og fjörufiskarnir sprettfiskur, keilubróðir og marhnútur, ásamt öndum, vaðfuglum, fýl, svartfuglum, hagamúsum og hryggleysingjum. Við ferskvatn voru laxfiskar mjög mikilvægir en hornsíli einnig étin, ásamt vaðfuglum, öndum, fýl, hagamúsum o.fl. Fiskar eru stærri hluti fæðu minks hérlendis en í flestum sambærilegum rannsóknum erlendis.
Talsverður árstíðamunur var í fæðuvalinu. Hann kom helst fram í því að fiskar voru uppistaða fæðunnar yfir vetrartímann en fuglar mikilvægari að sumarlagi, sem endurspeglar annars vegar komu farfuglanna og hins vegar að erfiðara er fyrir minkinn að klófesta fisk með vaxandi vatnshita, og þar með auknum viðbragðsflýti fiskanna.
Læður éta fisk en steggir fugla
Nokkur kynjamunur kom fram í fæðuvalinu en í grófum dráttum einkenndist hann af því að læður átu hlutfallslega talsvert meira af fiski en steggir en þeir átu aftur á móti meira af fuglum en læður. Líklega endurspeglar þetta stærðarmun og mismunandi landnotkun kynjanna en steggirnir eru um tvöfalt þyngri en læður og eiga því e.t.v. auðveldara með að veiða fugla. Fyrri rannsóknir Náttúrustofunnar benda og til þess að steggir leiti meira frá vatni í fæðuleit en læðurnar.
Nánari upplýsingar um rannsóknina má finna í grein sem birtast mun í júníhefti alþjóðlega vísindatímaritsins European Journal of Wildlife Research. Nálgast má vefútgáfu greinarinnar hér og ítarefni um niðurstöðurnar hér.