Leikskólakennarar láta í sér heyra

Leikskólakennarar mótmæltu við Ráðhús Reykjavíkur í dag.
Leikskólakennarar mótmæltu við Ráðhús Reykjavíkur í dag. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Við látum ekki deigan síga. Maður tekur því ekki þegjandi þegar maður er misrétti beittur,“ segir Hrund Traustadóttir, en hún var ein leikskólakennara sem fylktu liði að Ráðhúsi Reykjavíkur í hádeginu til að mótmæla niðurfellingu neysluhlés.

Neysluhléið skilar leikskólakennurum 15-20 þúsund krónur eftir skatt á mánuði en til stendur að draga úr því í þrepum og tók fyrsta 25% lækkunin gildi 1. apríl. Mikil óánægja er meðal leikskólakennara vegna breytinganna og benda þeir m.a. á að breytingin eigi bara við um menntaða leikskólakennara, en ekki um ófaglært starfsfólk leikskóla né stjórnendur, sem enn fái greitt fyrir að borða með börnunum. 

„Við náttúrlega tökum þessu ekki þegjandi því þetta er sanngirnismál og réttlætismál. Okkur er beinlínis mismunað fyrir það að hafa menntað okkur sem leikskólakennarar,“ segir Hrund. Hún ítrekar að leikskólakennarar fari ekki fram á að aðrir verði sviptir þessum greiðslum líka heldur að allir skuli sitja við sama borð. „Þetta er brot á jafnréttisreglu Reykjavíkur sem borgin sjálf setur.“

Félag leikskólakennara hyggst leita réttar síns og höfða mál gegn Reykjavíkurborg vegna breytinganna. Fjöldi leikskólakennara af leikskólum víða mætti með táknrænum hætti í hádeginu í dag með mótmælaskilti og tjáði óánægju sína við Jón Gnarr borgarstjóra og Dag B. Eggertsson, borgarfulltrúa Samfylkingar. 

Jón Gnarr og Dagur B. Eggertsson komu út og ræddu …
Jón Gnarr og Dagur B. Eggertsson komu út og ræddu við leikskólakennara sem afhentu þeim mótmælaskjal. Mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert