Samkvæmt bráðabirgðatölum létust 40 fyrir eigin hendi árið 2010. Tölur um sjálfsvíg á síðasta ári liggja ekki fyrir en þau voru heldur færri. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá embætti landlæknis.
Undanfarin ár hafa sjálfsvíg verið um 35 á ári. Árið 2005 voru þau 33 talsins, 32 árið 2006, 37 árið 2007, 38 árið 2008 og 36 árið 2009.
Ekki hafa enn verið gefnar út opinberar skýrslur um dánarmein fyrir árið 2010. Skráningu og útgáfa dánarmeina hefur seinkað vegna breyttrar umsýslu hjá Hagstofu Íslands og síðar flutnings á verkefninu í maí 2011 til Embættis landlæknis.
Bráðabirgðatölur um tíðni sjálfsvíga sýna þó að heildarfjöldi sjálfsvíga fyrir árið 2010 sé 40, sem er svipuð tíðni og verið hefur. Rannsóknir á dánarorsökum geta verið tímafrekar og leyfa því ekki að endanleg niðurstaða dánarmeina liggi fyrir nær í almanakstíma en sex til átta mánuði.
Tölur um sjálfsvíg á árinu 2011 virðast enn sem komið er lægri en árin á undan þó að gögn séu augljóslega skemmra á veg komin í vinnslu. Þessa niðurstöðu styður einnig regluleg vöktun á heildardánartíðni sem er fylgst með vikulega.