„Sendiherra ESB, Timo Summa, fer hér um sveitir, á vegum Evrópustofu, sem hefur það að markmiði samkvæmt yfirlýsingu forstöðumanns stofunnar „að hafa ekki áhrif á umræðuna“. Sendiherrann segir á hinn bóginn, að hann ætli að „skapa“ umræðuna. Það virðist ekki vefjast fyrir neinum innan Evrópustofu að þessar yfirlýsingar ganga í kross.“
Þetta segir Tómas Ingi Olrich í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Hann bendir á að sendiherrann hagi sér eins og þingmaður í aðdraganda kosninga: hann heimsæki fyrirtæki, ræði við atvinnurekendur og reki áróður fyrir ESB. Tómas segir að með framferði sínu komi sendiherra ESB fram við Íslendinga eins og þjóðin sé ekki sjálfstæð og fullvalda og hafi að engu þær reglur sem ESB hafi undirgengist.
Þá segir Tómas: „Ekki hefur komið í ljós að utanríkisráðherra hafi gert athugasemdir við inngrip sendiherrans í umræður um það stórpólitíska innanríkismál, sem aðildarumsókn um ESB er. Sakleysingjar í blaðamannastétt hafa reynst ESB nytsamlegir með því að telja ekkert athugavert við það, að sendiherrann fari um sveitir og reki áróður fyrir ESB-aðild.“
Greinina má finna í heild í Morgunblaðinu í dag, en áskrifendur geta einnig lesið hana hér.