Verða að bíta í skjaldarrendurnar

Árni Þór Sigurðsson.
Árni Þór Sigurðsson. Morgunblaðið/Ómar

„Það er kannski ekki óvenjulegt á þessum tíma að ríkisstjórnarflokkarnir eru heldur í lægð og stjórnarandstaðan og einkum Sjálfstæðisflokkur að bæta við sig. En þetta er áminning um það, að við verðum að bíta í skjaldarrendurnar, stjórnarflokkarnir,“ segir Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri grænna, um niðurstöður úr Þjóðarpúlsi Gallup.

Meðal þess sem kom fram í Þjóðarpúlsinum er að aðeins einu sinni hefur sitjandi ríkisstjórn mælst með minni stuðning, þ.e. í ársbyrjun 2009, skömmu áður en slitnaði upp úr samstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. 

Og á sama tíma og stuðningur við ríkisstjórnina minnkar mælist Vinstrihreyfingin - grænt framboð með ríflega ellefu prósent fylgi og Samfylkingin með ríflega 17 prósent fylgi. Til samanburðar mælist fylgi Sjálfstæðisflokks 38%.

Árni Þór segir að taka þurfi það í reikninginn að ekki komi fram hvert svarhlutfallið var. Engu að síður þurfi að taka þessa niðurstöðu alvarlega. „Það er ekki annað hægt en að líta á þetta sem að minnsta kosti ábendingu eða áminningu um það hver staðan er í augnablikinu.“ 

Hann segir þetta vissulega afleiðingu þeirra erfiðu verkefna sem ríkisstjórnin glímir við. „Að sjálfsögðu er það svoleiðis, og það gerði enginn ráð fyrir því að þau verkefni yrðu auðveld eða vinsæl. En menn verða kannski að tala máli sínu engu að síður, betur en gert hefur verið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka