Veruleg þáttaskil í trúmálapólitík

Karl Sigurbjörnsson biskup Íslands.
Karl Sigurbjörnsson biskup Íslands. Árni Sæberg

Sú breyting sem lögð er til í frumvarpi innanríkisráðherra um skráð trúfélög, að hætt verði að skrá nýfædd börn í trúfélög samkvæmt aðild móður, er íþyngjandi fyrir trúfélögin og gengur gegn hagsmunum barnsins. Þetta segir biskup Íslands í umsögn sinni um frumvarpið.

Markmið þeirra breytinga sem fram koma í frumvarpinu er að jafna stöðu lífsskoðunarfélaga og skráðra trúfélaga, og að tryggja jafnrétti foreldra barns við ákvörðun um hvaða skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi það skuli tilheyra.

Í umsögn biskups segir að hér sé verið að stíga skref sem valdi verulegum þáttaskilum í trúmálapólitík landsins. Biskup segir skilin milli trúfélags og lífsskoðunarfélags um margt óljós og lögð sé til róttæk breyting sem stefnt sé að með hagsmuni eins félags í huga, þ.e. Siðmenntar.

Biskup segir að framkvæmd laga um trúfélög hafi verið æði frjálsleg og þröskuldar lágir hvað varðar skráningu trúfélags. „Með þeirri breytingu sem frumvarpið gerir ráð fyrir er verið að opna leið sem ekki er gott að sjá hvert leiðir í raun.“

Flókið fyrirkomulag í framkvæmd

Hvað varðar þá breytingu, að hætt verði að skrá nýfædd börn í trúfélag móður, gerir biskup tillögu að breytingu. Hann segir að núverandi fyrirkomulag hafi þótt vera til einföldunar og hafi virkað vel. Þá sé hætt við að það fyrirkomulag sem lagt er til í frumvarpinu verði flókið í framkvæmd, enda engin ákvæði um það hvernig skuli farið með ef foreldrar barns verða ekki sammála. „Viðbúið er að skrásetning barns verði útundan og staða barnsins verði tilgreind utan trúfélaga.“

Því er lögð til eftirfarandi breytingatillaga: „Í stað síðustu setningarinnar: „Fram til þess tíma verður þessi staða barnsins ótilgreind.“ komi: Ákvörðun þess efnis skal liggja fyrir þegar nafn barns er skráð, ella verði það skráð í trúfélag móður.“

Ekki gengið lengra án stórtjóns

Þá mótmælir biskup harðlega umsögn fjárlagaskrifstofu við frumvarpið, en þar er gert ráð fyrir að lækkað verði einingaverð sóknargjalda til að halda heildarútgjöldum óbreyttum. „Hér er gert ráð fyrir því að þjóðkirkjan og önnur trúfélög gjaldi fyrir velgjörð ríkisins í þágu lífsskoðunarfélaga þar sem ekki sé ætlunin að stofna til aukinna útgjalda ríkissjóðs með þessu frumvarpi. Að lækka „einingaverðsmiðun framlaga“, eins og það er orðað, bitnar á öllum þeim sem þiggja sóknargjöld og grefur undan starfsemi trúfélaganna.“

Biskup segir að þjóðkirkjan hafi mætt niðurskurði sóknargjalda með umtalsverðum niðurskurði á starfsemi sinni, á vettvangi safnaða og stofnana kirkjunnar. „Stendur það starfi og þjónustu kirkjunnar mjög fyrir þrifum og verður ekki lengra gengið án stórtjóns.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert