Aðgerðir skiluðu litlu

Tekið út úr hraðbanka.
Tekið út úr hraðbanka. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Fátt bendir til þess að þær aðgerðir sem komu til framkvæmda í kjölfar endurútreiknings gengislána, hækkunar launa og innleiðingar greiðslujöfnunar fasteignalána hafi dregið verulega úr umfangi greiðsluvanda þar sem afrakstur þeirra skilaði sér að takmörkuðu leyti til þess hóps. Meðal annars virðist 110% leiðin hafa skipt litlu máli.

Í erindi Þorvarðar Tjörva Ólafssonar og Karenar Á. Vignisdóttur, hagfræðinga hjá Seðlabanka Íslands, í dag um stöðu íslenskra heimila frá ársbyrjun 2007 til ársloka 2010 kom fram, að aðeins 650 heimili komust úr greiðsluvanda vegna afskrifta á húsnæðislánum í tengslum við 110% leiðina. Það endurspeglar aftur þá staðreynd að stærstur hluti afskriftanna féll öðrum heimilum í skaut. Skuldstaða húseigenda batnaði en enginn þeirra losnaði þó úr neikvæðri eiginfjárstöðu vegna aðgerðanna, þótt þær flýti fyrir því að það gerist.

Hinar tímabundnu sérstöku vaxtaniðurgreiðslur virðast að sama skapi renna flestar til tekjuhærri heimila. Rúmlega 60% af heildarupphæð sérstöku vaxtaniðurgreiðslunnar falla tekjuháum heimilum í skaut samanborið við tæplega fimmtung til handa tekjulágum. Einungis 27% upphæðarinnar fara til heimila í greiðsluvanda en meira en þriðjungur fer til heimila með mikinn tekjuafgang.

Aðeins um átta hundruð heimili hafa losnað úr greiðsluvanda vegna sérstöku vaxtaniðurgreiðslnanna. Þær hafa því aðeins að litlu marki skilað sér til þess hóps sem mest þarf á þeim að halda.

Þá fóru þau yfir málin með hliðsjón af því ef ráðist yrði í almenna niðurfellingu skulda. Tekið var mið af 20% lækkun á verðtryggðum skuldum heimila og myndi það kosta um 260 milljarða króna. Hins vegar myndu um 57% afskrifta vegna ímyndaðrar 20% lækkunar verðtryggðra húsnæðislána falla tekjuháum heimilum í skaut samanborið við tæplega 22% til tekjulágra. Um fjórðungur afskrifta færi til heimila í greiðsluvanda sem er minna en heimili með mikinn tekjuafgang hlytu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert