Mikil óánægja er á meðal nemenda 10. bekkjar Vallaskóla á Selfossi og foreldra þeirra þar sem þeir fengu tilkynningu frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands síðdegis í dag um að bekknum væri bannað að selja tertur á flóamarkaði í Tryggvaskála á Selfossi á morgun.
Fimleikahópur ætlaði líka að vera með kökubasar í Kjarnanum á morgun og hefur það líka verið bannað. Þetta kemur fram í á fréttavefnum DFS.
„Það sýður á mér, við erum búin að baka allar terturnar og gera allt klárt þegar þetta símatal kemur, auk þess að vera búin að auglýsa flóamarkaðinn í blöðum. Ég hreinlega neita að trúa því að þetta sé satt, þvílíkt og annað eins þjóðfélag sem við búum í. Það er greinilegt að Heilbrigðiseftirlitið mismunar hópum því það hafa verið haldnir kökubasarar reglulega í Kjarnanum í vetur, nú síðast um síðustu helgi þar sem konur úr kvenfélagi Hraungerðishrepps voru með kökubasar,“ segir Rannveig Anna Jónsdóttir í samtali við DFS en hún er einn af forsvarsmönnum nemenda 10. bekkjar.