Reykjavíkurborg tapaði í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur dómsmáli vegna 1,4 milljarða inneignar í peningasjóði Landbankans.
Málsatvik eru þau að 3. júní 2008 gerðu Reykjavíkurborg og Landsbankinn með sér samning um eignastýringu. Með samningnum tók Landsbankinn að sér að veita borginni ráðgjöf og þjónustu vegna viðskipta með fjármálagerninga, annast vörslu þeirra og eignastýringu.
Föstudaginn 3. október 2008 nam verðbréfaeign borgarinnar í eignastýringu hjá Landsbanka Íslands hf. alls 4.245.301.929 krónum að markaðsvirði. Að morgni þess dag óskaði borgin eftir að flytja fjóra milljarðana yfir í innistæðubréf í Seðlabanka. Landsbankinn veitti þau svör að innistæðubréf Seðlabanka væru uppseld. Niðurstaða af samtali fulltrúa borgarinnar og bankans varð því sú að flytja peningana yfir í sparibréf Landsbankans enda væru þau alfarið notuð til að fjárfesta í ríkisbréfum.
Ágreiningur í málinu snerist um hvort þessi viðskipti hefðu komist á áður en Landsbankinn féll 6. október.
Í dómnum segir að samtöl starfsmanna borgarinnar og Landsbankans, en upptaka af þeim voru lögð fyrir dóminn, og framlögð gögn staðfesti að vilji Reykjavíkurborgar stóð til þess að fjármunir sóknaraðila yrðu áfram í eignastýringu hjá Landsbankanum. Þau staðfesta einnig að starfsmaður borgarinnar samþykkti að fjármunirnir yrðu færðir yfir í Sparibréfin, þótt honum hafi þá verið kynnt að uppgjör gæti ekki farið fram fyrr en eftir helgi.
Í dómnum segir að ekkert í gögnum málsins styðji fullyrðingu borgarinnar að opið hafi verið fyrir viðskipti með fjármálagerninga í Peningabréfum Landsbankans 6. október 2008. „Hefur dómurinn þegar komist að þeirri niðurstöðu að umræddur starfsmaður [Landsbankans] hafi í einu og öllu farið að fyrirmælum sóknaraðila [borgarinnar],“ segir í niðurstöðum dómsins.