Fjórar Smáralindir við Landspítalann?

Tillagan um nýjan spítala á Landspítalalóð.
Tillagan um nýjan spítala á Landspítalalóð.

Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segist telja að deiliskipulag á Landspítalalóð við Hringbraut sé mjög vont. Samkvæmt skipulaginu eigi að fara að byggja nýjan spítala sem sé 290 þúsund fermetrar að stærð. Ef tekið sé tillit til bygginga sem fyrir eru á lóðinni verði þarna sem svarar fjórum Smáralindum.

Þetta kemur fram á bloggsíðu Gísla Marteins. Fundur hófst í borgarstjórn kl. 14 þar sem deiliskipulagið verður m.a. til umræðu.

„Meirihlutinn í Reykjavík hefur nú ákveðið að reyna að keyra í gegn nýtt deiliskipulag Landspítalans við Hringbraut. Deiliskipulagið er að mínu mati mjög vont. Til dæmis eru bílastæðamál á svæðinu mjög illa leyst, og raunar óleyst að stórum hluta. Mikilvæg götuhorn þar sem ættu að standa glæsilegar hornbyggingar eru illa hönnuð og illa nýtt (eitt meginhornið verður til dæmis nýtt undir varaaflstöðvar og bílastæðahús). Gamla Hringbrautin hverfur undir risabyggingar, þrátt fyrir samhljóða óskir skipulagsráðs um annað. Ásýndin að gamla spítalanum hverfur á bak við nýjar byggingar, og þannig mætti áfram telja.

Furðulegast í þessu öllu er þó byggingarmagnið sjálft. Samkvæmt þessu skipulagi ætla Íslendingar að fara að reisa spítala sem verður samtals um 290 þúsund fermetrar. Núverandi Landspítali er 60-70 þúsund fermetrar og Borgarspítalinn 30 þúsund fermetrar (samtals 90-100 þúsund fermetrar). Ástæða nýju byggingarinnar er sameining þessara tveggja spítala, og í því ljósi er mjög sérstakt að sameinaður muni spítalinn verða þrisvar sinnum stærri en þeir tveir hlutar sem eru að sameinast.

Byggingarnar sem fyrir eru á landspítalalóðinni munu standa áfram, og því má segja að nýtt byggingamagn sé um 220 þúsund fermetrar. Það eru tæplega fjórar Smáralindir,“ segir Gísli Marteinn.

Bloggsíða Gísla Marteins

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert