Vegagerðin hefur hafnað öllum tilboðum sem bárust í rekstur Herjólfs. G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltri Vegagerðarinnar, segir að þrjú tilboð hafi borist en ekkert þeirra hafi staðist allar kröfur sem gerðar voru.
Vegagerðin hefur gefið tilboðsgjöfum tækifæri til að lagfæra tilboð sín þannig að þau uppfylli kröfur sem gerðar eru og staðfesta um leið tilboð sín. Vegagerðin gefur tilboðsgjöfum frest til 13. apríl til að lagfæra tilboðin. Jafnframt hefur verið óskað eftir því við Eimskip, sem rekur Herjólf, að fyrirtækið framlengi rekstrarsamning sinn um einn mánuð.
Tilboðin þrjú voru frá Eimskip, Samskip og Sæferðum. Fram kemur á vef Eyjafrétta í dag að fundað hafi verið með starfsfólki Herjólfs í dag. Í fréttinni segir að þungt hljóð hafi verið í starfsfólki sem hefur verið í óvissu með starfsöryggi sitt.