Mál lögreglu til ríkissaksóknara

Lögreglustöðin við Hverfisgötu.
Lögreglustöðin við Hverfisgötu. mbl.is

Persónuvernd hefur ákveðið að senda mál lögreglu höfuðborgarsvæðisins sem var til meðferðar hjá stofnuninni til ríkissaksóknara vegna ítrekaðra brota gegn lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Persónuvernd lítur málið alvarlegum augum.

Um er að ræða mál sem kom upp í tengslum við þátt í Mbl Sjónvarpi. Í honum var fjallað um mál af tilefni tilkynningar til lögreglu um árás á starfsmann tiltekins fyrirtækis. Rætt var við rannsóknarlögreglumann í tæknideild lögreglu höfuðborgarsvæðisins sem í viðtalinu sýndi ljósmyndir af áverkum starfsmannsins, þar á meðal myndir þar sem greina mátti andlit hans. Maðurinn var auk þess nafngreindur og tekið fram að í stað þess að um árás hafi verið að ræða kynni maðurinn að hafa veitt sér áverkana sjálfur.

Persónuvernd óskaði skýringa lögreglu höfuðborgarsvæðisins á þessu. Í bréfinu minnti Persónuvernd á bréfaskipti sem áður höfðu átt sér stað vegna birtingar upplýsinga af umræddu tagi, þ.e. við flutning erindis framangreinds rannsóknarlögreglumanns á Læknadögum árið 2010. Þar birti hann sambærilegar myndir og í ofangreindum þætti.

Bárust Persónuvernd þá skýringar frá lögreglu þess efnis að með bættu verklagi yrði komið í veg fyrir tilvik sem þetta. Í ljósi þess varð niðurstaða bréfaskiptanna sú að Persónuvernd taldi ekki ástæðu til að aðhafast frekar. Hins vegar mæltist stofnunin til þess að framvegis endurtækju sig ekki slík tilvik.

Mistök umrædds fjölmiðils

Í bréfi frá lögreglu frá því í desember sl. segir að allt verklag við kynningar hafi verið endurskoðað í samræmi við athugasemdir Persónuverndar frá 2010. Meðal annars er farið yfir allar kynningar til að tryggja að þar sé ekki að finna persónugreinanleg gögn þar sem það á ekki við.

Þá segir að lögreglu hafi ekki verið kunnugt um, áður en þátturinn var settur í loftið, að til stæði að nafngreina manninn eða birta umræddar myndir án þess að andlit hans yrði gert ógreinilegt. Það hafi verið fyrir mistök umrædds fjölmiðils að umfjöllunin var ekki send lögreglunni til skoðunar áður en hún var birt.

Í kjölfar erindis Persónuverndar til lögreglu voru gerðar breytingar á umræddri umfjöllun af hálfu Mbl. Sjónvarps, nafngreining var tekin út auk þess sem andlit hans var gert ógreinilegt. Fyrri útgáfa af þættinum er því ekki lengur aðgengileg á vefnum.

Í niðurstöðu Persónuverndar er vísað til þess að stofnunin hafi áður mælst til þess að lögregla höfuðborgarsvæðisins gæti varúðar við meðferð slíkra gagna sem um ræðir. Þá hafi lögregla lýst því yfir að með skerptu verklagi verði komið í veg fyrir að tilvik sem þessi endurtaki sig.

„Það hefur hins vegar ekki gengið eftir og lítur Persónuvernd því mál þetta alvarlegum augum. Komið getur til refsiábyrgðar ef brotið er gegn lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 42. gr. laganna. Af 35. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 verður ráðið að mál, þar sem reynt getur á slíkt, komi til kasta ríkissaksóknara. Með vísan til þess var ákveðið á framangreindum fundi að senda honum afrit af bréfi þessu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert