Fólksflutningar frá Færeyjum á árunum 1993-94 voru fimmfalt meiri en eftir hrun hér á landi. Þetta kemur fram í skýrslu sem unnin var fyrir velferðarráðuneytið um fólksflutninga til og frá landinu.
Höfundur skýrslunnar er Ólöf Garðarsdóttir, prófessor við menntavísindasvið Háskóla Íslands. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna meðal annars að tíðni flutningsjöfnuðar meðal íslenskra ríkisborgara (aðfluttir Íslendingar að frádregnum brottfluttum af hverjum 1.000 íbúum) hefur frá árinu 2009 verið svipaður og á öðrum samdráttarskeiðum, svo sem um miðjan tíunda áratuginn og í kjölfar hruns síldarstofnsins í lok sjöunda áratugarins.
Athugun á endurkomuhlutfalli innan þriggja ára frá brottför í hópi Íslendinga sem fluttu frá landinu árin 2008 og 2009 sýnir að endurkomuhlutfall þeirra er svipað og verið hefur undanfarna tvo áratugi.
Umfangsmestu breytingar á flutningum erlendra ríkisborgara til og frá Íslandi urðu á þensluskeiðinu um miðjan nýliðinn áratug og hefur þróuninni verið líkt við það sem kallað hefur verið gorkúlubær (e. boomtown) þar sem íbúum fjölgar hratt vegna aðflutnings vinnuafls. Kynjahlutfall aðfluttra gjörbreyttist þar sem hlutfallslega mun fleiri karlar komu hingað en konur, ólíkt því sem áður hafði verið.
Árin 2006–2007 voru aðfluttir erlendir ríkisborgarar um 10.826 fleiri en þeir sem fluttust brott, flutningsjöfnuður hér á landi var hærri en í nokkru öðru Evrópulandi og hlutfall erlendra ríkisborgara á Íslandi óx frá því að vera hið lægsta á Norðurlöndunum upp í að vera það hæsta.
Þótt verulega hafi dregið úr flutningum útlendinga til Íslands árin eftir hrun og hlutfallslega fleiri flytjist frá landinu en til þess, hafa engu að síður fleiri erlendir ríkisborgarar flutt til landsins árin 2009, 2010 og 2011 en nokkurt ár fyrir árið 2005. Skýrsluhöfundur bendir á að í ljósi þess hve margir útlendingar fluttu til landsins í aðdraganda hrunsins sé athyglisvert hve brottflutningur er lítill í hópi erlendra ríkisborgara þótt flutningsjöfnuður í þeirra hópi sé vissulega neikvæður.