Fréttaskýring: Minna fylgi en Samfylkingin fékk ein

mbl.is/Hjörtur

Ríkisstjórnarflokkarnir Samfylkingin og Vinstrihreyfingin - grænt framboð mælast nú með minna fylgi samanlagt en Samfylkingin ein fékk í síðustu þingkosningum. Þetta má meðal annars lesa út úr niðurstöðum þjóðarpúls Capacents Gallup sem birtar voru í gær. Stjórnarflokkarnir hafa nú samtals um 28% fylgi en Samfylkingin hlaut hins vegar 29,8% í kosningunum vorið 2009. Saman hafa flokkarnir tveir því misst sem nemur rúmlega öllu fylgi VG frá því í kosningunum.

Vinstrihreyfingin - grænt framboð hefur ein og sér misst um helminginn af því fylgi sem flokkurinn fékk í síðustu kosningum. Flokkurinn fékk 21,7% fylgi í kosningunum en mældist hins vegar nú með 11% fylgi samkvæmt þjóðarpúlsinum. Það þýðir að af því 21,7% sem  flokkurinn hlaut vorið 2009 eru 10,7% farin ef marka má niðurstöður skoðanakönnunarinnar. Fylgi VG hefur ekki mælst minna síðan í október árið 2003 eða fyrir um sjö og hálfu ári.

Samfylkingin mælist nú með 17% fylgi en fékk 29,8% í kosningunum 2009. Flokkurinn hefur samkvæmt því misst 12,8% af þessum 29,8% sem þýðir hlutfallslega um 43% fylgisins. Samfylkingin hefur ekki haft minna fylgi síðan í nóvember árið 2001 eða fyrir ríflega áratug síðan. Næstminnst mældist fylgi flokksins í október 2010 þegar það var 17,5%. Fyrst eftir bankahrunið fór fylgið lægst í 22% í janúar 2009 þegar Samfylkingin ákvað að slíta þáverandi ríkisstjórnarsamstarfi sínu við Sjálfstæðisflokkinn.

Mikil fylgisaukning Sjálfstæðisflokksins

Sjálfstæðisflokkurinn mælist nú með 38% fylgi samkvæmt þjóðarpúlsinum sem er mikil aukning frá síðasta mánuði þegar fylgi flokksins fór niður í 33%. Þar á undan hafði fylgið verið í kringum 36% í um eitt og hálf ár. Fylgið fór í og yfir 38% að sama skapi í nóvember og desember síðastliðnum en hafði þar á undan ekki farið í þá tölu síðan í febrúar árið 2008. Sem kunnugt er galt Sjálfstæðisflokkurinn afhroð í kosningunum 2009 og fékk einungis 23,7% fylgi.

Fylgi Framsóknarflokksins mælist nú 13% en flokkurinn fékk 14,8% í kosningunum 2009. Sögulega séð hefur Framsóknarflokkurinn gjarnan haft tilhneigingu til þess að mælast lægri á miðju kjörtímabili en síðustu mánuðina fyrir kosningar. Lengst af mældist flokkurinn með í kringum 9% á milli kosningar 2007 og 2009 en fékk síðan sem áður segir tæp 15 í kosningunum 2009. Það verður fróðlegt að sjá hvort sú verði raunin í aðdraganda næstu kosninga.

Taka fylgi frá stjórnarflokkunum

Af nýju framboðunum þremur kemur Samstaða, flokkur Lilju Mósesdóttur, sterkast inn og mælist með 9% fylgi sem þó er minna en fyrir mánuði þegar fylgi flokksins var rúmlega 11%. Björt framtíð, flokkur Guðmundar Steingrímssonar alþingismanns og Besta flokksins, er með tæplega 5% fylgi en þeim þröskuldi þarf að ná til þess að fá þingmenn kjörna samkvæmt kosningalögum. Þá mælist Dögun, framboð sem Borgarahreyfingin, Hreyfingin og Frjálslyndi flokkurinn standa meðal annars að, með 5% fylgi samkvæmt skoðanakönnuninni.

Erfitt er að segja nákvæmlega til um það hvaða hreyfingar eru á fylgi stjórnmálaflokkanna. Þótt fylgi flokka virðist óbreytt kann að vera að þeir hafi misst fylgi en einfaldlega bætt sér það upp annars staðar. Ef aðeins er horft í tölurnar er ljóst að Framsóknarflokkurinn heldur nokkurn veginn sínu frá síðustu kosningum á meðan Sjálfstæðisflokkurinn bætir mjög miklu við sig. Stjórnarflokkarnir tapa hins vegar miklu fylgi. Nærtækast er því að draga þá almennu ályktun að nýju framboðin taki fyrst og fremst fylgi frá Samfylkingunni og VG en ekki Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert