Vafasamt að bera fyrir sig trúnaði

PIP-púðar sem fjarlægðir voru úr konu á Landspítalanum. 58% fyllinga …
PIP-púðar sem fjarlægðir voru úr konu á Landspítalanum. 58% fyllinga sem hafa verið skoðaðar leka.

PIP-málið hefur komið af stað þarfri umræðu um eftirlitshlutverk landlæknisembættisins og fleiri stofnana eins og Lyfjastofnunar og hversu vanmáttugar þessar stofnanir eru í eftirliti með læknastarfsemi utan sjúkrahúsa. Þetta kemur fram í grein sem Tómas Guðbjartsson, prófessor í skurðlæknisfræði við Háskóla Íslands, ritar í Læknablaðið.

Tómas segir þetta ekki síst snúa að skráningu ígræða (implants) en notkun þeirra fer hratt vaxandi í skurðlækningum. Sem dæmi segir Tómas mega nefna ísetningu gang- og bjargráða, hjartaloka ýmiss konar og nælonneta við kviðslitsaðgerðir. Flestar þessara aðgerða eru gerðar á sjúkrahúsum og því hægt að rekja ígræði sem notuð eru í tölvuskrám sjúkrahúsa. Kviðslitsaðgerðir eru á meðal algengustu skurðaðgerða á einkastofum, en þar sem Sjúkratryggingar Íslands taka þátt í kostnaði sjúklinga er unnt að afla upplýsinga um þær og þau ígræði sem notuð eru, ef nauðsyn ber til.

„Sjúkratryggingar taka hins vegar sjaldan þátt í kostnaði við brjóstastækkanir og skráning á notkun brjóstafyllinga hefur verið á ábyrgð lýtalækna sjálfra. Það er óviðunandi að mínu mati og byggi ég það mat mitt á nýjum og gömlum dæmum,“ skrifar Tómas.

Hin síðari ár hefur sífellt meiri áhersla verið lögð á skráningu fylgikvilla í skurðlækningum og tengingu þeirra við ígræði. Þannig er hjartaloka sem grædd er í sjúklinga á Landspítala skráð með sérstöku framleiðslunúmeri í sjúkraskrá sjúklings, en sömu upplýsingar skráðar erlendis af framleiðanda lokunnar. Þessi nákvæma skráning kemur ekki til af góðu, skrifar Tómas. 

Í lok áttunda áratugarins kom upp hönnunargalli í hjartaloku af Björk-Shiley-gerð sem notuð hafði verið í mörg þúsund sjúklinga. Þegar lokublöðin losnuðu urðu afleiðingarnar afdrifaríkar og skurðlæknum var því fyrirskipað að hafa upp á sjúklingunum og í sumum tilfellum að skipta gölluðu lokunum út fyrir nýjar. „Þessi reynsla varð til þess að skerpa mjög á eftirliti og skráningu lækningatækja og ígræða um allan heim. Enda þótt afleiðingar lekra PIP-fyllinga séu ekki jafn alvarlegar er hér augljós heilsuvá á ferðinni.“

Tómas telur því ljóst að miðlæg skráning ígræða sé nauðsynleg, jafnt í lýtalækningum sem öðrum sérgreinum skurðlækninga. „Þess vegna veldur áhyggjum að lýtalæknar hafi nýlega neitað landlækni um upplýsingar um konur sem gengist höfðu undir brjóstastækkunaraðgerð. Ég tel vafasamt að bera þar fyrir sig trúnaðar- og þagnarskyldu gagnvart sjúklingum, enda er landlæknir líkt og aðrir læknar bundinn trúnaði við sjúklinga. Embættið hefur um árabil skráð viðkvæmar upplýsingar sem mikilvægt er að hafa aðgengi að, til dæmis um sjálfsvíg og voveifleg mannslát. Meti landlæknisembættið það svo að vá sé fyrir hendi, þarf landlæknir að geta haft samband við þá sjúklinga sem málið varðar. Slíkt eftirlitshlutverk á ekki að vera á ábyrgð einstakra lækna sem sumir halda skrár um sjúklinga sína í einkatölvum.  Í 7. grein laga um landlækni og lýðheilsu (nr. 41/2007) er skýrt tekið fram að landlæknisembættið skuli hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu á landsvísu, jafnt innan sem utan sjúkrahúsa. Í sömu lög vantar hins vegar augljóslega úrræði til að beita viðurlögum, séu þessar upplýsingar ekki veittar,“ skrifar Tómas í grein í Læknablaðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert