Rætt um sjávarútvegsmál og efnahagskreppuna

Frá fundi sameiginlegu þingmannanefndarinnar í gær.
Frá fundi sameiginlegu þingmannanefndarinnar í gær.

Ýmis málefni voru rædd á fjórða fundi sameiginlegrar þingmannanefndar Íslands og Evrópusambandsins sem fram fór í Þjóðmenningarhúsinu í gær. Einkum var rætt um umsókn íslenskra stjórnvalda um aðild að ESB en einnig önnur mál er varða samskipti Íslands og sambandsins samkvæmt fréttatilkynningu. Flutti Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, framsögu sem fulltrúi íslenskra stjórnvalda.

Meðal annars var rætt um sjávarútvegsmál í tengslum við umsóknina og gafst fundarmönnum kostur á að bera fram fyrirspurnir í þeim efnum fyrir Steingrím J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Fram kemur í tilkynningunni að í umræðunum hafi verið lögð áhersla á mikilvægi þess að hefja á ný samningaviðræður um makrílveiðar.

Ennfremur var rætt um sveitarstjórnarmál og samstarf íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélaga innan ESB. Framsögur fluttu Guðríður Arnardóttir, varaformaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Mercedes Bresso, formaður héraðanefndar ESB. Segir í fréttatilkynningunni að héraðanefndin hafi staðfest vilja sinn til þess að kynna fyrir íslenskum sveitarfélögum áskoranir og tækifæri sem fælust í ESB-aðild.

Þá var einnig rætt um viðbrögð Íslands við efnahagskreppunni og um breytingar á stofnanakerfi ESB í kjölfar kreppunnar. Þá var einnig rætt um eflingu græna hagkerfisins. Sömuleiðis var til umræðu ályktun Evrópuþingsins frá 14. febrúar sl. um framvinduskýrslu Íslands 2011 vegna ESB-umsóknarinnar.

Næsti fundur sameiginlegu þingmannanefndarinnar er fyrirhugaður 26.-27. nóvember á þessu ári í Brussel.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert