Skuldir heimila lækkuðu milli ára

Stjórnvöld segja að athugun ríkisskattstjóra sýni að yfirveðsettum heimilum hefur …
Stjórnvöld segja að athugun ríkisskattstjóra sýni að yfirveðsettum heimilum hefur fækkað úr 25.876 í 14.412 eða sem nemur tæplega 11.500 heimilum. Ómar Óskarsson

Athugun Ríkisskattstjóra fyrir stjórnvöld sýnir að skuldir heimila lækkuðu um 3-4 prósent  frá 2010 til 2011 eða um 9 prósent að raunvirði. Lækkunin er meiri meðal ungs fólks en þeirra sem eldri eru. Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórnvöldum.

Tilefni tilkynningarinnar er skýrsla tveggja hagfræðinga Seðlabanka Íslands sem gerðu rannsókn á stöðu íslenskra heimila frá ársbyrjun 2007 til ársloka 2010. Í tilkynningunni segir að rannsóknin sé gagnlegt framlag til umræðunnar um fjárhagsstöðu heimilanna, en rétt sé að benda á að hún tekur ekki tillit til breytinga á vaxtabótum sem gildi tóku í fyrra.

Þá sé einnig horft framhjá áhrifum 110 prósenta leiðarinnar svonefndu, og svo þykir rétt að árétta að kaupmáttur launa jókst um 2,6 prósent frá 2010  til 2011 og kaupmáttur lægstu launa jókst enn meir eða um 8 til 10 prósent.

Stjórnvöld segja að athugun ríkisskattstjóra sýni að yfirveðsettum heimilum hefur fækkað úr  25.876 í 14.412 eða sem nemur tæplega 11.500 heimilum. „Í rannsókn Seðlabankans er leitast við að meta áhrif ýmissa aðgerða til að draga úr greiðsluvanda fólks. Niðurstaðan er mjög skýr: lítill árgangur næst með almennum aðgerðum. Rannsóknin sýnir að almenn skuldaniðurfærsla er dýr og kemur einungis að litlu leyti til móts við  þá sem eru í greiðsluvanda.

Jafnframt er vísað til orða Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra um að mikilvægast sé að leysa úr vanda þeirra sem eru í greiðsluvanda og þá fyrst og fremst þeirra sem eru bæði í greiðslu- og skuldavanda. Auk þess þurfi að horfa til þess sístækkandi hóps sem er á leigumarkaði og þeirra sem eru með litla sem enga greiðslugetu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka