Þær stjórnmálahreyfingar sem komið hafa fram á undanförnum mánuðum og stefna á framboð fyrir næstu alþingiskosningar virðast ekki hafa náð að höfða til þess fylgis sem af einhverjum ástæðum hefur ekki viljað styðja neinn af þeim stjórnmálaflokkum sem eiga fulltrúa á Alþingi í dag ef marka má skoðanakannanir Capacents Gallup á fylgi flokkanna.
Undanfarna mánuði hafa í kringum 30% þeirra sem tekið hafa þátt í þjóðarpúlsi Capacents Gallup ekki viljað nefna neinn af þeim stjórnmálaflokkum sem sæti eiga á Alþingi og gefið fyrir því ýmist þær ástæður að ekki stæði til að mæta á kjörstað, ætlunin væri að skila auðu, viðkomandi hefði ekki gert upp hug sinn eða einfaldlega hefur verið neitað að svara.
Rætt hefur verið um það, meðal annars af ýmsum álitsgjöfum, að þetta ástand benti til þess að svigrúm væri fyrir ný framboð sem gætu þá ekki síst náð að höfða til þessa fylgis sem væri ekki reiðubúið að styðja þau framboð sem fyrir væru. Hins vegar benda skoðanakannanir Capacents Gallup sem fyrr segir til þess að það hafi ekki gerst þrátt fyrir þau nýju framboð sem fram hafa komið að undanförnu.
Fylgi Bjartrar framtíðar, Samstöðu og Dögunar var kannað fyrst í þjóðarpúlsi Capacents Gallup sem birtur var í byrjun mars og síðan aftur nú í byrjun apríl. Samanlagt hlutu þessi nýju framboð um 20% fylgi. Hins vegar virðist allt það fylgi vera meira eða minna á kostnað annarra framboða sem fyrir eru. Nærtækast er að ætla að fylgið komi frá ríkisstjórnarflokkunum sem tapað hafa miklu fylgi.
Hins vegar eru enn um 30% þeirra sem taka þátt í þjóðarpúlsi Capacents Gallup sem segjast ekki ætla að mæta á kjörstað, skila auðu, gefa ekki upp afstöðu sína eða neita að svara og skiptast þessi 30% ennfremur með hliðstæðum hætti ennþá á milli þessara hópa eins og verið hefur undanfarna mánuði þrátt fyrir að fylgi nýju framboðanna hafi einnig verið mælt sérstaklega í síðustu tveimur skoðanakönnunum.