Kínverski fjárfestirinn Huang Nubo, sem reyndi í fyrra að kaupa Grímsstaði á Fjöllum án árangurs, hefur nú tryggt sér samning um að byggja upp ferðamannsvæði í Pu'er borg í Yunnan héraði í Kína.
Áætlað er að ferðamannasvæðið, sem er staðsett nálægt nýlegum flugvelli í Lancang sýslu, verði 60 ferkílómetrar á stærð og að framkvæmdum við það ljúki um næstu áramót. Á svæðinu verður hægt að finna þorp með gistiaðstöðu, golfvelli, spa, sýningarsali, afþreyingaraðstöðu og ráðstefnumiðstöð. Talið er að fjárfestingin muni kosta um 50 milljarða kínverskra júana en hana gerir Huang Nubo á vegum fjárfestingarfélagsins Zhongkun Investment Group.
„Nei, það held ég að ég geti fullyrt að sé alls ekki,“ segir Halldór Jóhannsson, talsmaður Huangs Nubo á Íslandi, aðspurður hvort þessi fjárfesting þýði það að hugmyndir Huangs Nubo um að fjárfesta á Íslandi séu komnar á klaka og bætir við: „En hinsvegar hefur þessi athygli sem að hann hefur fengið opnað ýmsa aðra möguleika fyrir fyrirtækið. En það er allt á áætlun hérna og við bíðum ennþá eftir því ferli sem er í gangi hjá iðnaðarráðuneytinu og ég held að það sé allt á áætlun hjá þeim, við bíðum bara rólegir.“
Nánar má lesa um málið á vefsíðu kínverska ríkisútvarpsins.