Segir umfjallanir ruglingslegar

mbl.is/Þorgeir Baldursson

Sjávarútvegsráðuneytið gerir athugasemdir við umfjallanir Deloitte og Íslandsbanka um frumvörp um stjórn fiskveiða og veiðigjöld og segir þær ruglingslegar og byggðar á misskilningi.

Ráðuneytið segir að eðlilegt sé að líta á veiðigjöldin sem endurgreiðslu á kostnaði og leigu fyrir heimild til nýtingar á eign sem ekki tilheyri útgerðinni.

Þetta kemur fram í frétt á vef Stjórnarráðsins.

Þar segir að Deloitte virðist ganga út frá þeirri meginforsendu að útgerðaraðilar eigi kvótann og eigi þar af leiðandi líka allan hagnað af nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar án tillits til þess hve mikið þeir hafa lagt fram. Taka veiðigjalds sé því skattlagning hagnaðar en ekki greiðsla fyrir afnot af auðlindinni. Ennfremur gangi Deloitte út frá því að hagnaður í útgerð sé tilkominn fyrir tilstilli útgerðarinnar einnar og því sé hann „eign“ hennar.

„Fram hjá því verður ekki litið að afkoma sjávarútvegs og ekki síst umframarðurinn er að hluta háður ytri aðstæðum, einkum raungengi gjaldmiðilsins og verði fyrir fiskiafurðir. Þetta er sérstaklega áberandi nú síðustu fáu árin. Á meðan almenningur verður að taka á sig byrðar vegna lækkunar krónunnar er því öfugt farið með útgerð og fiskvinnslu. Tekjur í þeim geira aukast stórlega án þess að það verði rakið til breytinga á starfseminni,“ segir í fréttinni.

„Í því sem Deloitte hefur látið frá sér kemur lítið fram á hverju niðurstöður þeirra eru byggðar. Ljóst er þó að ýmsar forsendur eru hæpnar. Meðal þess sem benda má á er að áhrif veiðigjalda á tekjuskattsgreiðslur, þ.e. væntanleg lækkun þeirra, er ekki metin en hún ætti til lengri tíma litið að vera 20% af veiðigjaldinu.“

Í fréttinni segir að umfjöllun Íslandsbanka um flokk 2 í frumvarpi um stjórn fiskveiða sé ruglingsleg og „virðist sumpart byggð á misskilningi“. Skerðing í þorski, ýsu, ufsa og steinbít sé sú sama og á yfirstandandi fiskveiðiári.

„Um langt árabil hefur hluta aflaheimilda í þessum tegundum verið varið til hliðarráðstafana, svo sem byggðkvóta, línuívilnunar, rækju- og skelbóta og nú síðustu árin til strandveiða. Það er því misskilningur hjá Íslandsbanka að verið sé að auka skerðingu í þessum fjórum bolfisktegundum.“

Fréttin á vefsíðu Stjórnarráðsins

Frétt mbl.is : Ekki gert ráð fyrir afskriftum

Frétt mbl.is: Minni fjárfesting og minni tekjur ríkissjóðs

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert