Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands harma þær breytingar á Reykjanesskaga sem lagðar eru til í þingsályktunartillögu að rammaáætlun um vernd og orkunýtingu náttúrusvæða.
Þetta segir í tilkynningu sem samtökin sendu frá sér. Þar segir að þau harmi „þá aðför, sem gerð er að náttúruperlum Suðvesturlands í þingsályktunartillögu að Rammaáætlun um vernd og orkunýtingu náttúrusvæða. Sú tillaga sem ríkisstjórn Íslands hefur nú lagt fyrir Alþingi býður þeirri hættu heim að landshlutanum verði umbreytt í samfellt iðnaðar- og orkuvinnslusvæði frá Reykjanesi til Nesjavalla við Þingvallavatn.
Verði af jarðvarmavirkjunum á þeim svæðum sem sett eru í orkunýtingaflokk tapast ómetanleg náttúruverðmæti sem t.a.m. gætu gagnast til uppbyggingar á ferðaþjónustu í landshlutanum. Að ráðast inn í friðlýsta fólkvanga með virkjanir rýrir verulega möguleika íbúa svæðisins til að njóta ósnortinnar náttúru í nágrenni við heimili sín.
Auk óafturkræfra náttúruspjalla yrðu jarðvarmavirkjanir þessar að öllum líkindum ekki sjálfbærar og á engan hátt hluti þess græna hagkerfis sem ríkisstjórnin hefur boðað og segir sig standa fyrir. Náttúruperlur þessar eru m. a. Sveifluháls í Krýsuvík, Eldvörp, Stóra-Sandvík og Sandfell sunnan Keilis.
Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands hvetja ríkisstjórnina eindregið til þess að gera breytingar á þingsályktunartillögunni og færa náttúruperlur Suðvesturlands yfir í verndarflokk eða biðflokk.“