Ákveðið hefur verið að Herjólfur sigli tvær ferðir til Landeyjahafnar í dag, en aðstæður í höfninni munu vera góðar, utan þess að dýpi er ekki komið í það ástand að hægt sé að sigla þangað á öllum tímum.
Þetta segir í tilkynningu frá rekstrarstjóra Herjólfs.
„Af þeim sökum er nauðsynlegt að sigla eftir sjávarföllum þ.e. sigla á og við háflóð. Mikilvægt er að hafa í huga að aðstæður þurfa ekki að breytast mikið til þess að við neyðumst til að hverfa frá þessum siglingum en skv. spám næstu dag er útlitið ágætt og dýpkun mun halda áfram,“ segir í tilkynningunni.
Áætlun dagsins er því eftirfarandi:
08:00 Vestmannaeyjar – Þorlákshöfn
11:45 Þorlákshöfn – Vestmannaeyjar
15:30 Vestmannaeyjar – Landeyjahöfn
17:00 Landeyjahöfn – Vestmannaeyjar
17:50 Vestmannaeyjar – Landeyjahöfn
19:00 Landeyjahöfn – Vestmannaeyjar
Þeir farþegar sem áttu bókað frá Vestmannaeyjum til Þorlákshafnar kl. 15:30 færast í 15:30-ferð til Landeyjahafnar. Þeir farþegar sem áttu bókað frá Þorlákshöfn 19:15 færast í 19:00-ferðina frá Landeyjahöfn.
Herjólfur mun sigla til Þorlákshafnar eina ferð á morgun, föstudag, vegna sjávarstöðu.
Farþegar eru vinsamlega beðnir að fylgjast með fréttum á vefsíðu Herjólfs, facebooksíðu Herjólfs og síðu 415 í Textavarpi. Nánari upplýsingar eru einnig gefnar í síma 481-2800.