Ívar Gunnlaugsson, skipstjóri á Herjólfi, segir að sigling Herjólfs í Landeyjahöfn í gær hafi gengið vel. Ferjan fór tvær ferðir milli Eyja og Landeyjahafnar í gær og var bíladekkið fullt í báðum ferðum.
Herjólfur hefur lítið notað Landeyjahöfn í vetur og hefur því verið siglt til Þorlákshafnar. Miklu styttra er að sigla í Landeyjahöfn og því er lagt allt kapp á að taka höfnina sem fyrst í notkun á ný. Sanddæluskipið Skandia hefur unnið að dýpkun hafnarinnar.
Herjólfur fór eina ferð í dag og var siglt til Þorlákshafnar. Fyrsta ferð skipsins á morgun verður til Þorlákshafnar, en vonast er eftir að hægt verði að fara tvær ferðir í Landeyjahöfn síðdegis. Endanleg ákvörðun um það verður tekin í fyrramálið.