Jarðskjálftahrinur eru þekktar á því svæði þar sem 20 jarðskjálftar hafa orðið frá því á skírdag, norðaustan Tungnafellsjökuls og vestan við mynni Vonarskarðs. Skjálftarnir þykja ekki benda til eldsumbrota eða annars óróa eins og er en að sögn sérfræðings hjá Veðurstofu Íslands gæti það breyst ef skjálftarnir ágerast.
Á skírdag hófst hrina jarðskjálfta norðaustan Tungnafellsjökuls, vestan við mynni Vonarskarðs. Alls hafa mælst rúmlega 20 skjálftar. Stærsti skjálftinn, 2,9 að stærð, varð klukkan 3:08 nú í nótt, aðfaranótt laugardags.
Vonarskarð er á milli Bárðarbungu í Vatnajökli og Tungnafellsjökuls.
Skjálftarnir tengjast ekki Öskjuvatni, sem er í um 100 km fjarlægð frá skjálftasvæðinu.