Fjölmargir staðir opnir í dag

Fjólda fólks mátti sjá ofan í Árbæjarlaug í dag þegar …
Fjólda fólks mátti sjá ofan í Árbæjarlaug í dag þegar að ljósmyndara Morgunblaðsins bar að garði. Árni Sæberg

Það er liðin tíð að allt sé lokað um páskana. Í dag eru sumar verslanir, bensínstöðvar, líkamsræktarstöðvar og jafnvel sundlaugar opnar.

Tvær sundlaugar á höfuðborgarsvæðinu eru opnar í dag en það eru Árbæjarlaug og Laugardalslaug, báðar laugarnar eru opnar til klukkan 18:00 í dag. Þeir sem þrá konar hreyfingu en sund þurfa þó ekki að kvíða enda eru líkamsræktarstöðvar World Class í kringlunni og í Laugum opnar í dag. World Class í kringlunni er opið allan sólarhringinn en einungis er opið til klukkan 18:00 í Laugum.

„Hún er góð en hún hefur oft verið betri,“ segir Anna Magnúsdóttir, starfsmaður Árbæjarlaugar, aðspurð hvernig umferðin hafi verið í lauginni í dag. Að sögn Önnu var mun meira að gera í sundlauginni á föstudaginn langa en þá hafi laugin veri sneisafull af gestum.

Þegar blaðamaður hringdi í Já (118) og spurði hvar hann gæti verslað í matinn fékk hann það svar að opið væri í öllum verslunum 10-11 og verslunum Nóatúns við Nótatún 17, Hamraborg og í Austurveri.

Átta bensínstöðvar á vegum Olís eru opnar allan sólahringinn í dag, en þær eru í Garðabæ, Norðlingaholti, Álfheimum, Gullinbrú, Selfossi, Akureyri, Borgarnesi og Reykjanesbæ (Básinn).

Þeir sem leita sér afþreyingar geta síðan litið við í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum en þar er opið til 17:00 í dag. Þetta er þó ekki eina afþreyingin í boði því að öll helstu kvikmyndahús landsins eru jafnframt opin í dag.

Lög um helgidagafrið

Samkvæmt 4. gr. laga nr. 32/1997 um helgidagafrið eru skemmtanir, svosem dansleikir eða einkasamkvæmi, á opinberum stöðum sem almenningur hefur aðgang að, óheimilar á páskadag. Opinberar sýningar og skemmtanir eru jafnframt bannaðar á þessum degi ef happdrætti, bingó eða önnur svipuð spil fara þar fram. Í 5. gr. sömu laga er hinsvegar ýmiss konar starfsemi undanþegin þessum takmörkunum, þ.á.m. gististarfsemi, lyfjabúðir, bensínstöðvar, blómaverslanir, myndbandaleigur, íþrótta- og útivistarstarfsemi, listsýningar, tónleikar, kvikmyndasýningar og starfsemi matvöruverslana með verslunarrými undir 600 fermetrum þar sem a.m.k. 2/3 hluti veltunnar er sala á matvælum, drykkjarvöru og tóbaki.

Lög um helgidagafrið má nálgast á vef Alþingis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert