Störfum í sveitum þarf að sinna hvort sem það eru páskar eða ekki. Bóndinn í Drangshlíð plægði í dag byggakra sína á Skógasandi undir Eyjafjöllum. Hann vonast eftir mildu vori svo uppskeran verði góð í haust.
„Vorverkin eru hafin,“ segir Þórarinn Ólafsson, bóndi í Drangshlíð II en hann leigir land á Skógasandi undir Eyjafjöllum þar sem hann ræktar bygg. Þórarinn ræktar á samtals um 50 hekturum, bæði á Skógasandinum og við Drangshlíð.
Svo fer að líða á sáningatíðinni og þá verður fyrst nóg að gera hjá Þórarni. Líklega verður byrjað að sá um mánaðarmótin. „Ég var að sá á sama tíma í fyrra en þetta fer auðvitað eftir veðurfari. Hér nú mjög gott veður. Nú stöndum við allir í þessu, að undirbúa jarðveginn.“
Þórarinn segir að uppskeran hafi víðast hvar verið frekar léleg í fyrra. „Það skýrðist sérstaklega af köldu vori og við vonum að það verði ekki eins þetta árið. Svo fengum við mikla rigningartíð og allt fór mjög seint af stað.“
Þórarinn vinnur við plægingu og sáningu ásamt félaga sínum og segir traktorinn nú ganga allan sólarhringinn. „Sérstaklega þegar sáningin byrjar,“ segir Þórarinn en hann sáir fyrir fleiri bændur, líklega í um 700-800 hektara þetta vorið.
Þórarinn segir Skógasandinn henta vel til byggræktar. „Ég er nú aðeins að glíma við illgresi en það er eitthvað sem maður verður bara að takast á við.“
Þórarinn hefur fengist við byggrækt frá árinu 2006. „Það eru sjálfsagt fáir sem hafa sáð í jafnmikið land og ég,“ segir Þórarinn um störf sín.
Það verður því í nógu að snúast hjá Þórarni næstu dagana og hann segir ekki hægt að taka sér frí á sjálfan páskadaginn. „Ég hef ekki gert það síðustu ár og ekki heldur á afmælisdaginn minn, 1. maí. Þá er ég alltaf að vinna,“ segir hann og hlær. „Ég hef það náðugt í desember, aðra mánuði ársins er yfirleitt mikið að gera.“