Segir hótunina ekki til heimabrúks

Wikipedia

„Það sem markverðast var í svörum Pat the Cope [Gallagher] var að hann sagði skýrt og klárt að auðvitað hefðu orð írska ráðherrans ekki verið ætluð til heimabrúks – að mönnum beri að taka þau alvarlega,“ segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is en hún sat á dögunum fund sameiginlegrar þingmannanefndar Alþingis og Evrópuþingsins vegna umsóknarinnar um inngöngu í sambandið þar sem meðal annars var rætt um makríldeiluna.

Ragnheiður vísar þarna til ummæla sjávarútvegsráðherra Írlands, Simons Coveney, fyrir skömmu um að viðræður um sjávarútvegsmál í tengslum við umsóknina kynnu að vera í uppnámi vegna makríldeilunnar. Sagði hann útilokað að hefja raunhæfar viðræður um málaflokkinn án þess að deilan hefði fyrst verið leyst. Ummælin féllu í tengslum við fréttir af því að Evrópusambandið hygðist flýta vinnu við að koma á refsiaðgerðum gagnvart Íslendingum og Færeyingum vegna makríldeilunnar.

Gæti sett strik í reikninginn

Ummæli Coveneys  hafa vafalítið verið hugsuð sem eins konar hótun til þess að setja þrýsting á íslensk stjórnvöld vegna makríldeilunnar enda hafa þau lagt áherslu á umsóknina um inngöngu í Evrópusambandið. Íslenskir ráðamenn hafa hins vegar talið að slík ummæli væru hugsuð til heimabrúks eins og til að mynda kom fram í máli Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra, á fundi utanríkismálanefndar Alþingis 26. mars síðastliðinn þar sem rætt var um umsóknina.

Í samtali við mbl.is síðastliðinn miðvikudag sagði Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og formaður sameiginlegu þingmannanefndarinnar ásamt Gallagher, að makríldeilan gæti sett strik í reikninginn í viðræðunum um inngöngu í Evrópusambandið ef sambandið setti hana fyrir sig. Það ætti þó eftir að koma í ljós. Hann sagði að litið hafi verið svo á að málin tvö væru aðskilin en annað hefði þó heyrst til að mynda frá einstaka ráðherra innan Evrópusambandsins.

Mætti eins snúa dæminu við

„Þetta er það sem þeir segja sem standa í viðræðunum við okkur, stækkunardeildin og aðrir. En Evrópusambandið er flókið fyrirbæri og það er auðvitað á ýmsum öðrum stöðum innan Evrópusambandsins verið að segja eitthvað annað. Það á við um sjávarútvegsdeildina og það getur átt við einstaka ráðherra í aðildarríkjum Evrópusambandsins eins og við höfum heyrt frá sjávarútvegsráðherrum Írlands og Bretlands. Þeir tengja þetta óneitanlega saman,“ sagði Árni Þór.

Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegsráðherra, til að mynda hefur lagt áherslu á að makríldeilan og umsóknin um inngöngu í Evrópusambandið væru tvö óskyld mál og ekki væri ásættanlegt að þeim væri blandað saman. Á Alþingis 20. mars síðastliðinn sagði hann meðal annars í tilefni af ummælum Coveneys að allt eins mætti snúa dæminu við. Það væri auðvitað erfitt fyrir Íslendinga að halda áfram viðræðum við Evrópusambandið ef draga ætti inn í þær óskylt mál eins og makríldeiluna. Það væru ekki boðlegt ef það væri gert.

Slíta ætti viðræðunum við ESB

„Ég lýsti því sem minni skoðun að það ætti nú þegar að stöðva aðildarviðræðurnar þar sem það sé algerlega óásættanlegt að semja í góðri trú með hótanir um viðskiptaþvinganir hangandi yfir,“ segir Ragnheiður um umræðurnar á fundi nefndarinnar. Hún segist einnig hafa spurt að því hvort viðræðurnar og makríldeilan tengdust beint en ekki fengið svör við því frá Gallagher: „Hvorki hann né aðrir svöruðu beint hvort makríllinn og aðildarviðræðurnar tengdust með beinum hætti.“

Ragnheiður segir að Gallagher, sem einnig hefur verið framarlega í aðkomu Evrópuþingsins að makríldeilunni og hefur kallað eftir hörðum aðgerðum Evrópusambandsins vegna makríldeilunnar, hafi í fyrstu misskilið hana og talið að hún ætti við að stöðva ætti viðræður um skiptingu makrílkvótans og í kjölfarið haldið ræðu um mikilvægi þess að ná slíkum samningum. „Ég leiðrétti það og ítrekaði að það væru ESB viðræðurnar sem ég vildi slita og hann brást svo sem ekki við því.“

Gagnrýndi ályktun um hvalveiðar

Ragnheiður ræddi einnig um ályktun Evrópuþingsins fyrr á þessu ári um viðræðurnar um inngöngu Íslands í Evrópusambandið þar sem meðal annars var lögð áhersla á að hvalveiðum Íslendinga yrði hætt. Mótmælti hún því orðalagi og vakti ennfremur máls á því að ályktunin benti ekki til þess að þarna væru „samningaviðræður í gangi um hvort hvalveiðum yrði framhaldið, heldur hvernig ætti að stöðva þær.“

Hún lagði ennfremur áherslu á að meirihluti Íslendinga styddu veiðarnar samkvæmt skoðanakönnunum, þær færu fram með sjálfbærum hætti og væru byggðar á vísindalegum rannsóknum. Þá benti hún á að hvalveiðarnar hefðu verið leyfðar samkvæmt þingsályktun frá Alþingi sem hefði sama vægi og aðrar slíkar. Eins og til dæmis sú að sækja um inngöngu í Evrópusambandið.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is
Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG.
Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert