Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, sagði í prédikum í Dómkirkjunni í morgun, að þrátt fyrir skefjalausan áróður gegn kirkjunni, hinum kristna sið og trúarhefðum lifi flestar íslenskar fjölskyldur helgistundir og hátíðir um ársins hring. Börn eru borin til skírnar og unglingar fermast og játa trúna þrátt fyrir andróður og svívirðingar frá umhverfinu.
Í prédikun sinni sagði Karl þá til sem haldi því fram að trúin sé blekking, að fyrirgefnin og friðþæging og eilífa lífið sem kristin trú boðar, sé blekking eða tálsýn. „Hausaskeljastaður er nefnilega svo allt of víða, vonbrigðin og áföllin, þjáningin, sektarbyrðin, hatrið, dauðinn. Er ekki hver sinnar gæfu smiður sem uppsker svo sem til var sáð? Svo er spurt. Eða er hver og einn leiksoppur þeirra kerfa og aðstæðna sem ráða för?
[...]
Páskarnir, upprisa Krists er raunveruleiki í heiminum, kristin trú er ekki skoðanir eða álit á hinu og þessu sem helst fangar hug þeirra sem hugsa og skrafa, blogga og blaðra hverju sinni. Hún stendur og fellur með sannleiksgildi þeirrar fréttar sem sögð er um alla jörð í dag, og endurómar fregnina sem hljómaði við opna, tóma klettagröf í Jerúsalem hinn fyrsta páskadag. Þetta er erindi kirkjunnar við heiminn. Annað ekki!“
Karl sagði trúna og hinn kristna sið þrátt fyrir allt vera ómissandi þátt í lífi þorra fjölskyldna í landinu. „Gömlu, góðu siðferðisgildin eru ekki horfin úr vitund þjóðarinnar. Því fer fjarri að hér hafi orðið siðrof eins og ætla mætti af ýmsu því sem fyllir fréttir dagsins. Kirkjan er ein grunnstoða hins góða mannúðarsamfélags sem við viljum sjá dafna á Íslandi. Stór hluti þjóðarinnar heldur enn tryggð við hinn kristna sið, þrátt fyrir allt, og vill sjá kirkjuna og hið kristna uppeldi í trú og sið lifa og dafna með þjóðinni.“