„Ég hef á undanförnum vikum hugleitt að bjóða mig fram til embættis forseta Íslands og margir hafa hvatt mig til slíks framboðs. Ég hef hins vegar ákveðið að bjóða mig ekki fram að þessu sinni,“ segir Elín Hirst í tilkynningu í dag.
„Mig langar til að nota þetta tækifæri til að þakka þeim innilega sem hafa viljað styðja mig, vinna fyrir mig og greiða götu mína í tengslum við hugsanlegt forsetaframboð.
Áhugi minn á að beina kröftum mínum í þágu bætts samfélags var hvatinn að því að ég hugleiddi forsetaframboð. Sá áhugi er óbreyttur þrátt fyrir að það verði með öðrum hætti en í gegnum forsetaembættið. Ég hlakka til að takast á við fjölbreytt verkefni á því sviði, bæði þau sem ég er nú þegar að fást við og horfi ekki síður til framtíðar vettvangs hver sem hann verður, til að geta lagt góðum málum lið.
Sérstaklega hef ég áhuga á að auka og efla hlut kvenna í samfélaginu hvar sem því verður við komið með hvatningu og þjálfun. Ég vil einnig stuðla að aukinni menntun einstæðra mæðra, ekki síst í lægstu tekjuþrepunum, í nafni nýstofnaðs menntunarsjóðs Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur, sem verður kynntur síðar í apríl. Auk þess vil ég vinna að bættum lífsgæðum barna, öryggi þeirra og velferð, ekki síst til að verja þau fyrir kynferðislegu ofbeldi. Þá hef ég á undanförnum mánuðum unnið að verkefni í þágu barna með alvarlega, sjaldgæfa og ólæknandi sjúkdóma ásamt ,,Á allra vörum“, RÚV, Umhyggju, LSH og fleiri aðilum, en ætlun okkar er að safna nægu fé með landsátaki í september til þess að opna og reka stuðningsmiðstöð fyrir þessi börn og fjölskyldur þeirra,“ segir í fréttatilkynningu frá Elínu Hirst sem hún sendi fjölmiðlum í dag.