„Helgin var góð,“ segir Katrín Stefanía Klemenzardóttir, skálavörður í Landmannalaugum en rúmlega 30 manns gistu þar um páskana í einmuna blíðu.
„Já það er talverður snjór, en það hefur samt hlánað helling. Það er búinn að vera hiti allan tímann,“ segir Katrín og bætir við: „Það er fínt sleðafæri, það er nógur snjór þannig.“
„Um helgar verður hægt að fara hingað, en það verður ekki skálavörður fast. Ég verð núna fram á sunnudag. Svo verður bara séð til hvernig traffíkin er,“ segir Katrín en opið verður í Landmannalaugum um helgar næstu vikurnar og þarf að hafa samband við skrifstofu Ferðafélags Íslands til að fá inni í skálanum.
„Færðin er góð. Það er svolítið blautt, en fyrir vel búna jeppa þá er það ekkert mál. Það þarf svolítið að þræða sig. Passa sig bara að þræða sig á snjónum, en ekki á náttúrunni sjálfri,“ segir Katrín um færðina innúr. Hún segir að talsvert vatn sé í Jökulkvíslinni vegna leysinga.
„Veðrið er búið að vera yndislegt. Það er svo fallegt hérna núna. Ef himnaríki er til þá er það svona,“ segir Katrín að lokum.