Þegar ríkisstjórnin lýsti yfir fyrir hrun bankanna haustið 2008 að innstæður í bönkum og sparisjóðum hér á landi væru tryggðar að fullu, áttu einstaklingar hér á landi 530 milljarða kr. í bönkum og sparisjóðum og innstæður innlendra lögaðila námu 770 milljörðum kr.
Sú fjárhæð sem einstaklingar áttu umfram lágmarkstrygginguna, sem ríkisstjórnin skuldbatt sig að tryggð yrði sparifjáreigendum að fullu, var þá um 320 milljarðar kr. Innstæður umfram lágmarksverndina sem tilheyrði innlendum lögaðilum var 730 milljarðar. Alls voru þetta því 1.050 milljarðar, að því er fram kemur í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.
Þessar upplýsingar koma fram í svari efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Lilju Mósesdóttur alþingismanns um innstæður við fall fjármálakerfisins, sem dreift hefur verið á Alþingi.