Heimsóknir sprautufíkla í sérútbúinn sjúkrabíl á vegum Rauða kross Íslands voru 830 talsins á síðasta ári. Úrræðið nefnist Frú Ragnheiður og miðar að því að útvega sprautufíklum hreinar nálar og tæki til neyslu til að sporna við útbreiðslu HIV-smita og útbreiðslu lifrarbólgu C meðal sprautufíkla.
Í umfjöllun um mál þessi í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að um nýliðna helgi fundu börn að leik á Suðurnesjum notaðar sprautunálar í námunda við leikvöll, en gríðarleg hætta getur stafað af notuðum tækjum til eiturlyfjaneyslu og brýn þörf á að beisla þann vanda.
Sjá má fjölgun á HIV-smitum meðal sprautufíkla á síðustu árum. Á síðasta ári greindust 24 með HIV-smit á landinu en fjölgunin er mest hjá sprautufíklum. Talið er að sprautufíklar á Íslandi séu um 700 talsins, en sú tala byggist á áætlun SÁÁ.