Erfitt að stoppa ofsaaksturinn

Erfitt verður að stöðva ofsaakstur við Grandatorg og Ánanaust nema að gripið verði til samræmdra aðgerða. Þetta segir Guðbrandur Sigurðsson, aðalvarðstjóri Umferðardeildar lögreglunnar. Til greina komi að setja upp eftirlitsmyndavélar og fjölga hraðahindrunum en fjármögnun kæmi þá í hlut borgarinnar.

Myndskeið sem sýnir aksturslag ökuþóra við Grandatorg hefur vakið mikla eftirtekt en það var sett inn á vef mbl um helgina og var tekið upp af íbúa í nágrenninu. Þar sjást ökumenn leika ýmsar kúnstir sem ættu eingöngu að sjást á kappakstursbrautum. Íbúar í nágrenni við torgið hafa kvartað yfir aðgerðaleysi lögreglunnar og borgaryfirvalda en ástandið hefur verið viðvarandi í mörg ár, það leiddi þó til uppsetningar á hraðahindrunum við Fiskislóð snemma árs 2009 sem dró að sögn Guðbrands úr vandamálinu. En fram að því höfðu ökumenn á svæðinu verið teknir á 130 km hraða á klst. Þar sem hámarkshraðinn er 50 km á klst. 

Guðbrandur segir lögregluna alla af vilja gerða til að taka á vandamálinu en málið sé þó töluvert flókið. Ökumennirnir séu vel skipulagðir og láti vita ef lögreglan sé að nálgast bæði með SMS sendingum og í gegn um talstöðvar sem geri lögreglunni erfitt fyrir í að ná þeim. Hann segir málið mikið hafa verið rætt við bæði Reykjavíkurborg, Faxaflóahafnir og þau fyrirtæki sem starfi á svæðinu. Búið sé að kæra fjölda ökumanna fyrir of hraðan og glæfralegan akstur en það virðist ekki duga til. 

Hann segir að vel mætti skoða að setja upp öryggismyndavélar og fjölga hraðahindrunum t.d. við Ánanaust en það kæmi þá í hlut Reykjavíkurborgar að fjármagna slíkar aðgerðir. Þá segir Guðbrandur lögregluna skorta úrræði til að taka á því háttalagi sem sést á myndskeiðinu. Til að mynda segir hann lagaheimildir til að taka á því sem kallað er að „slæda“ á hringtorgum ekki vera alveg skýrar. Hann vonast þó til að það skýrist í nýjum umferðarlögum sem liggi fyrir hjá Alþingi. Þar til að niðurstaða fæst á milli þeirra aðila sem eiga hlut að máli er því ekki útlit fyrir að hægt verði að koma í veg fyrir ofsaaksturinn.

Ekki náðist í samgöngustjóra Reykjvíkurborgar vegna vinnslu fréttarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert