Mjög hlýtt var fyrstu þrjá mánuði ársins samkvæmt yfirliti sem Trausti Jónsson veðurfræðingur hefur tekið saman.
Á Akureyri hafa fyrstu þrír mánuðirnir aðeins einu sinni verið hlýrri en nú frá því að samfelldar mælingar hófust þar 1881, það var 1964. Árið 1929 voru mánuðirnir þrír jafnhlýir og nú. Fyrstu þrír mánuðir ársins hafa aðeins þrisvar verið hlýrri í Stykkishólmi heldur en nú, það var 1964, 1929 og 1847. Þessir mánuðir voru jafnhlýir og nú árið 2003. Byrjað var að mæla í Stykkishólmi 1845.
Meðalhiti í Reykjavík var 2,0 stig og er það 1,9 stigum ofan við meðallag áranna 1961 til 1990 og 0,9 stigum ofan meðallagsins 2001 til 2010.
Úrkoma hefur aðeins þrisvar mælst meiri en nú í Reykjavík fyrstu þrjá mánuði ársins, það var árin 1921 og 1953. Úrkomudagar hafa aldrei verið fleiri sömu mánuði heldur en nú. Þegar veturinn er skoðaður, þ.e. desember til mars, er sama uppi á teningnum. Veturinn var mjög úrkomusamur um landið sunnan- og vestanvert.