Skýrslur teknar af Norðmönnum

Norska skipið komið til hafnar í Vestmannaeyjum.
Norska skipið komið til hafnar í Vestmannaeyjum. mbl.is/Ómar Garðarsson

Skýrslutökur yfir skipshöfn norska skipsins Ny Argo, sem tekið var að meintum ólöglegum veiðum á Skeiðarárdýpi í gærmorgun, hófust um tíu leytið í morgun. Skipið kom til Vestmannaeyja seint í gærkvöldi og dvaldi áhöfnin í skipinu í nótt. 

„Þeir sem koma til veiða við landið eiga að kynna sér þær reglur sem gilda og hvaða skyndilokanir eru í gangi,“ segir Hrafnhildur Brynja Stefánsdóttur, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar. „Þessar upplýsingar eru á vefsíðu sjávarútvegsráðuneytisins og það er á ábyrgð þeirra sem veiða að afla sér þeirra.“

Ny Argo hafði lagt línu á svæðinu, en samkvæmt reglugerð eru veiðar bannaðar á svæðinu nema með flotvörpu eða hringnót. 

Að sögn Hrafnhildar var færeyskt skip nýverið tekið á svipuðum slóðum fyrir að hafa notað línu. 

Guðmundur Jóhannesson, deildarstjóri fiskveiðistjórnunarsviðs Fiskistofu segir að á þessu tiltekna svæði megi einungis nota veiðarfæri sem ekki hafa áhrif á hafsbotninn. „Á þessu svæði er verið að verja kóralana á botninum. Lína er eins og kaðaltaumur og á henni eru krókar, sem gætu krækst í kóralana og eyðilagt þá.“

Hann segir að öll þau veiðarfæri sem kallist botnlæg; botnvarpa, dragnót, lína og net séu því bönnuð en uppsjávarveiðarfæri eins og flotvarpa og hringnót leyfð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert