Norska skipið í Vestmannaeyjum

Norska skipið komið til hafnar í Vestmannaeyjum.
Norska skipið komið til hafnar í Vestmannaeyjum. mbl.is/Ómar Garðarsson

Norska skipið Ny Argo kom til Vestmannaeyja seint í gærkvöld. Áhöfn þyrlunnar TF-GNÁ stóð línuveiðiskipið að meintum ólögmætum veiðum í Skeiðarárdýpi í gærmorgun og var skipinu gert að sigla til hafnar í Vestmannaeyjum. Skýrslutaka mun fara fram í dag.

Varðstjórar stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar komu auga á skipið  um klukkan hálf níu í gærmorgun í ferilvöktunarkerfum en þá var skipið statt inni í hinu lokaða hólfi og virtist vera að leggja línu.

Samkvæmt reglugerð um verndun kóralsvæða út af Suður- og Suðausturlandi eru veiðar bannaðar á svæðinu nema með flotvörpu eða hringnót. 

Í 2. gr. reglugerðarinnar er fjallað um mál sem kunna að rísa vegna brota gegn ákvæðum reglugerðarinnar. Þar segir að brot varði viðurlögum samkvæmt 17. gr. laga nr. 79/1997 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

Í þeirri grein segir að sektir vegna brota gegn ákvæðum laganna eða reglum settum á grundvelli þeirra geti numið allt að fjórum milljónum króna eftir eðli og umfangi brots.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert