Einar K. Guðfinnsson og Jón Gunnarsson, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í atvinnuveganefnd Alþingis óska eftir því að á fundum nefndarinnar í þessari viku verði lagðir fram og útskýrðir útreikningar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins á áhrifum fyrirhugaðs veiðigjalds eins og það birtist í frumvarpi ráðherra.
Einnig óska þeir eftir að Huginn Þorsteinsson aðstoðarmaður ráðherra verði kallaður á fund nefndarinnar til að útskýra ummæli sín um niðurstöður endurskoðunarfyrirtækisins Deolitte á áhrifum veiðigjaldsins. Hann sagði m.a. í grein í Fréttablaðinu: „Ekki kom heldur fram í kynningunni hvort hún væri kostuð af LÍÚ eða útgerðarfyrirtækjum. Slíkt skiptir þó máli enda gæti einhver talið að búið væri að kosta fyrirtækið til áróðursherferðar“.
„Það er nauðsynlegt að fá fram þau rök sem liggja hér að baki og hvort ráðuneytið meti þær upplýsingar sem fram koma hjá Deloitte ómarktækar eða ekki,“ segir í tilkynningu frá þingmönnunum.