Eðlilegt að gera hlé á viðræðum

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er mjög merkilegt en kemur ekki að öllu leyti á óvart því Evrópusambandið er búið að vera að skipta sér af þessu máli frá byrjun. Það hefur ekki farið neitt á milli mála að Evrópusambandið hefur haft áhrif á framgöngu og afstöðu Eftirlitsstofnunar EFTA,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.

Í ljós hefur nú komið að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ætlar að fá aðild að málarekstri Eftirlitsstofnunar EFTA gegn Íslandi vegna Icesave málsins. Yrði það í fyrsta skipti sem framkvæmdastjórnin fengi beina aðild að dómsmáli fyrir EFTA dómstólnum.

Sigmundur Davíð bendir á að Evrópusambandið og stofnanir þess hafi margsinnis skipt sér af þessari deilu þrátt fyrir yfirlýsingar um að Icesave málið tengist umsókn Íslands að Evrópusambandinu ekki á nokkurn hátt.

„Þingmenn Evrópuþingsins ásamt þingmönnum í Hollandi og Bretlandi hafa lýst því yfir að þessi mál séu tengd en augljósasta tengingin er auðvitað sú að þetta mál fjallar um regluverk Evrópusambandsins,“ segir Sigmundur Davíð og ítrekar að hagsmunir Evrópusambandsins í Icesave deilunni séu því gríðarmiklir.

Mikil óvissa ríkir um framtíð Evrópusambandsins

Segir hann það ansi langt gengið af Evrópusambandinu að skipta sér af Icesave málinu með svo formlegum hætti.

„Menn þurfa að spyrja sig að því hvort eðlilegt sé að vera í viðræðum við Evrópusambandið á sama tíma og menn standa í töluvert hörðum deilum vegna Icesave málsins og makrílsins,“ segir Sigmundur Davíð en þær deilur hafa báðar verið tengdar við aðildarumsókn Íslendinga að Evrópusambandinu.

„Að vera í viðræðum við Evrópusambandið á meðan það gengur fram með þessum hætti gagnvart Íslandi er mjög óheppilegt og enn ein áminning um að eðlilegast væri að gera hlé á þessum viðræðum á meðan öll þessi óvissa ríkir um Evrópusambandið og samskipti við það,“ segir Sigmundur Davíð en mikil óvissa ríkir enn um þróun Evrópusambandsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert