Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ætlar að fá aðild að málarekstri Eftirlitsstofnunar EFTA gegn Íslandi vegna Icesave málsins. Það væri í fyrsta skipti sem framkvæmdastjórnin fengi beina aðild að dómsmáli fyrir EFTA dómstólnum. Kemur þetta fram á vef Ríkisútvarpsins.
Um miðjan desember vísaði Eftirlitsstofnun EFTA Icesave málinu til EFTA dómstólsins eftir að hafa komist að þeirri niðurstöðu að íslensk stjórnvöld hafi brotið gegn ákvæðum EES-samningsins með því að greiða eigendum Icesave reikninga ekki lágmarksinnstæðutryggingu við fall Landsbankans.
Málið hefur verið til meðferðar hjá dómstólnum síðan þjóðin hafnaði samningunum í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Á fréttavef Ríkisútvarpsins segir ennfremur að lögfræðingarnir, sem fara með mál Íslands, hafa skilað greinargerð sinni en frestur Eftirlitsstofnunarinnar til að svara greinargerðinni rann út í dag. Íslendingum mun gefast tækifæri til að svara andsvörum Eftirlitsstofnunar EFTA.