Charles Hendry, orkumálaráðherra Bretlands, segir að Bretar hafi áhuga að nýta sér raforku frá Íslandi. Þetta segir hann í viðtali við vefútgáfu Guardian.
Hendry sagði í skriflegu svari við fyrirspurn á breska þinginu á síðasta ári að Bretar hefðu rætt þá hugmynd við íslensk orkufyrirtæki að leggja neðansjávar-rafstreng til þess að flytja jarðvarmaorku frá Íslandi til Bretlands.
Rafstrengurinn þyrfti að vera rúmlega 1600 kílómetrar að lengd, en aldrei hefur svo langur rafstrengur verið lagður neðansjávar.
Í viðtalinu við Guardian segir Hendry að Bretar hafi átt alvarlegar viðræður við íslensk stjórnvöld um þetta mál og þau séu áhugasöm. Hann segist hafa rætt við forstjóra Landsvirkjunar um þetta mál.
Í frétt Guardian segir að Bretland hafi nánast alla tíð sé sjálft um að útvega sér orku. Nú sé hins vegar Norðursjávarolían að verða búin. Bannað sé að nota kol til orkuframleiðslu og því þurfi landið að horfa til annarra landa til að tryggja sér næga orku í framtíðinni. Bretar hafa þegar tengt raforkukerfi sitt við raforkukerfi Frakklands, Hollands og Írlands með sæstreng og fleiri tengingar eru í undirbúningi.