Hugmyndir eru uppi um að koma á laggirnar meðferð á Íslandi fyrri offeit ungmenni, hvaðanæva að úr heiminum. Nýsköpunarmiðstöð Íslands stendur í dag baki málþingi um hugmyndirnar, sem eru liður í uppbyggingu s.k. lífsgæðaferðaþjónustu á Íslandi en talið er að þar felist mörg tækifæri hér á landi.
„Við erum búin að safna saman sérfræðingum á þessu sviði og við vitum að við höfum mjög góða aðstöðu hér á landi. Góð íþróttamannvirki, sundlaugar og annað auk þess sem hér er sérfræðiþekking til staðar. Spurningin er hvort meira þurfi til," segir Sigmar B. Hauksson, ráðgjafi hjá Miðlun og menningu, sem stýrir umræðum á málþinginu í dag.
Börnin verða að vilja þetta sjálf
Hugmyndin byggir á því bjóða upp á meðferð fyrir of feit börn á aldrinum 13 til 16 ára. Í Bandaríkjunum hefur hefð myndast fyrir sumarbúðum fyrir of feit börn en sambærilega þjónustu er ekki að finna í Evrópu að sögn Sigmars. Hann segir bandarísku búðirnar þó ekki fyrirmyndina, þar virðist aðalmarkmiðið vera að grenna börnin, með misgóðum árangri, en hugmyndafræðin baki þessu er önnur.
„Við byggjum á hugmyndum Ragnars Bjarnasonar, prófessors og barnalæknis, um það að krakkar á þessum aldri eru þau einu sem geta haft áhrif á lífsgæði sín. Þau fara ekki eftir því hvað pabbi eða mamma, kennari eða læknar segja, þau verða að vilja þetta sjálf," segir Sigmar.
Meðferðin myndi því í fyrsta lagi byggja á fræðslu, til að gera börnunum það ljóst að þau geti haft áhrif á líkamsvöxt sinn og líf ef þau vilji. Í öðru lagi að taka þau úr sínu venjulega umhverfi og gefa þeim færi á að kynnast hreyfingu og heilbrigðu mataræði á nýjum vettvangi, sem yrði þá landsbyggðin á Íslandi. Grundvallaratriði að sögn Sigmars er að meðferðin verði skemmtileg. „Aðalmálið er að fá þau til að vilja þetta einlæglega sjálf."
Ferðaþjónusta fyrir fólk með frjókornaofnæmi
Eftirspurnin er sannarlega til staðar að sögn Sigmars, sem bendir á talið sé að í Evrópu séu um 7% allra útgjalda til heilbrigðismála vegna offitutengdra sjúkdóma. „Það er gríðarleg þörf og það eru ekki mörg úrræði fyrir unglinga hér í Evrópu." Hér á landi séu hinsvegar flestar forsendur til staðar til að koma meðferð sem þessari á fót og haldast þar í hendur öflug íþróttamannvirki um allt land, mikil fagþekking, hreint umhverfi og auðvitað líka lágt gengi krónunnar.
„Við köllum þetta lífsgæðaferðaþjónustu. Það er líka verið að vinna í þeirri hugmynd að Ísland gæti orðið áhugaverður staður fyrir fólk sem þjáist af frjóofnæmi, sem eru um 20% Evópubúa í dag. Hér á Íslandi höfum við um 10 vikur á ári þar sem engin frjó eru í andrúmsloftinu á sama tíma og þau eru komin á meginlandinu. Svo erum við að skoða líka að fara af stað með meðferðir fyrir fólk sem þjáist af þunglyndi, að það geti komið til Íslands og byggt sig upp. Það er skemmst komið í þessum pælingum."
Viðskiptaáætlun tilbúin í haust
Eftir málþingið verður hafist handa við að skoða kostnaðarþættina og mögulega markaðssetningu. Sigmar gerir ráð fyrir að þeirri vinnu ljúki í haust og þá verði hægt að hefja viðræður við sveitarfélög og heilbrigðisstofnanir.
Málþingið í dag er öllum opið, en það hefst kl. 14:15 og fer fram í húsnæði Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands í Keldnaholtinu. Dagskrá málþingsins má sjá hér.