Umferðaröngþveiti myndaðist á Fjarðarheiði um tíma í dag þegar bílar voru að fara yfir heiðina í mikilli hálku til að komast í Norrænu. Stór flutningabíll með eftirvagn (trailer) náði naumlega að stöðva sig en hann stefndi á bíla sem voru fastir á heiðinni.
Björgunarsveitin á Héraði og lögreglan hafa verið að aðstoða ferðamenn við að komast yfir Fjarðarheiði í ferjuna á Seyðisfirði í dag. Mikil hálka var á heiðinni Egilsstaðamegin.
Jóhann Guðbrandsson lögreglumaður á Egilsstöðum segir að tveir sendibílar hafi lokað heiðinni um tíma þar sem þeir komust ekki upp vegna hálkunnar. Þá hafi útlendingar á illabúnum bílum ekki komist af stað eftir að þeir neyddust til að stöðva bílana á hálum veginum.
Jóhann segir að litlu hefði mátt muna að illa færi þegar flutningabíllinn kom niður af heiðinni. Hann hefði neyðst til að stoppa þar sem hann komst ekki framhjá bílum sem voru stopp á heiðinni. Bíll hefði verið kominn þversum á veginum þegar hann náði að stöðva sig.