Páll: Skjálftinn um margt sérstakur

Páll Einarsson prófessor í jarðeðlisfræði við HÍ.
Páll Einarsson prófessor í jarðeðlisfræði við HÍ. mbl.is

Skjálftinn sem varð undir botni Indlandshafs vestur af Súmötru í morgun var um margt mjög athyglisverður. Í fyrsta lagi var stærðin 8,7 eða þar um bil sem setur skjálftann í flokk með stærstu skjálftum, skrifar Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur á Facebook-síðu sína.

Næstum allir skjálftar í efsta stærðarflokki verða vegna flekahreyfinga á samreksbeltum, þ.e. verða við það að tveir jarðskorpuflekar rekast saman og annar rennur undir hinn.

„Við slíkar aðstæður getur safnast mikil spenna á stóru svæði sem losnar í stórum skjálfta. Skjálftinn núna var hins vegar ekki af þessu tagi, sem gerir hann mjög sérstakan,“ skrifar Páll. „Hann varð við sniðgengishreyfingu og átti sér stað í jarðskorpu af úthafsgerð. Úthafsskorpan er þunn og brotgjarni hluti hennar því líka. Misgengið sem olli honum hlýtur því að vera gríðarlangt. Hingað til hefur verið álitið að svona stór skjálfti geti ekki orðið við þessar aðstæður. Ýmsir munu því þurfa að endurskoða áætlanir um skjálftahættu.“

 Og hafi menn einhverjar efasemdir um mælinguna á stærð skjálftans þá varð annar skjálfti tveimur tímum síðar að stærð 8,2. „Varla er hægt að kalla hann eftirskjálfta, til þess er stærðarmunurinn tæplega nógu mikill,“ skrifar Páll. Skjálftarnir urðu á skjálftasvæði sem kemur dreift fram á skjálftakortum. Það liggur út frá samreksbelti Súmötru, stefnir til SV og skiptir Indlands-Ástralíuflekanum í tvennt.

„Þessi jarðskorpufleki virðist vera um það bil að skiptast í tvo fleka. Þegar svona stór skjálfti verður er skjálfkrafa gefin út aðvörun um hættu á flóðbylgju. Hún er síðan dregin til baka ef engin bylgja kemur fram. Sjávarbylgjur frá skjálftunum í morgun hafa mælst á nokkrum stöðum en hvergi svo að hætta stafi af. Sennilega er það mest að þakka sniðgengiseðli skjálftanna. Hafsbotnin hreyfist mest í lárétta stefnu í upptökunum og slík hreyfing kemur ekki af stað bylgjum svo teljandi sé,“ skrifar Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert