Rúm 91% á móti sameiningunni

Frá fundi foreldra barna í Hamraskóla. Úr myndasafni.
Frá fundi foreldra barna í Hamraskóla. Úr myndasafni. mbl.is/Árni Sæberg

Mikill meirihluti foreldra barna í Hamraskóla í Reykjavík er andvígur sameiningu unglingadeildar skólans við unglingadeild Foldaskóla samkvæmt fréttatilkynningu frá aðstandendum undirskriftasöfnunar á meðal foreldra barnanna.

Undirskriftasöfnunin stóð yfir dagana 20. mars til 3. apríl síðastliðinn en samkvæmt tilkynningunni náðist í 301 foreldra af þeim 310 sem aðstandendur hennar reiknuðu út að stæðu á bak við börn í Hamraskóla. Af þeim 301 skrifuðu 274 foreldrar undir í söfnuninni eða rúmlega 91%.

Fram kemur að 27 foreldrar hafi ekki skrifað undir en fyrir því hafi meðal annars verið þær ástæður að viðkomandi ynnu hjá Reykjavíkurborg, treystu sér ekki til þess að skrifa undir vegna tungumálaörðugleika eða voru einfaldlega hlynntir sameiningunni.

„Niðurstaðan lýsir afgerandi vilja foreldra á móti sameiningunni. Óskum við eftir því að hlustað verði á raddir foreldra og íbúalýðræði verði virt,“ segir að lokum í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert