Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknar, hefur sett fram þingsályktunartillögu sem felur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og heilbrigðiseftirliti sveitarfélaganna að útbúa lagafrumvarp svo unnt verði að taka upp gæðamerkið „smiley“, eða „broskallinn“ á Íslandi. Tillagan er samin með danska „smiley-merkið“ að fyrirmynd, en það var tekið upp í Danmörku árið 2001.
„Broskallinn“ hjálpar neytendum að átta sig á gæðum þeirrar þjónustu og vöru sem í boði er hjá veitingastöðum, matvinnslufyrirtækjum, sjoppum og matvöruverslununum. Nýjungin felst í því að fyrirtæki fá einkunnargjöf, „broskall“ eftir hverja eftirlitsheimsókn, sem sett upp á áberandi stað í fyrirtækinu. Seljanda er óheimilt að fjarlægja merkið. Danskir neytendur eru vel kunnugir „broskallinum“ og þekkja muninn á stóra brosinu og skeifunni. Kerfið er einfalt í uppbyggingu og gerir neytendum auðvelt um vik að sjá hvaða fyrirtæki og verslanir hafa hlotið gæðastimpil. Merkinu er þannig ætlað að tryggja gagnsæi heilbrigðiseftirlitsins gagnvart neytendum og auka öryggi þeirra, segir í tilkynningu.
Neytendasamtökin hafa hvatt stjórnvöld til að innleiða „broskallinn“ á Íslandi, fyrst í febrúar 2011 í bréfi til þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jóns Bjarnasonar, þar sem þau óskuðu einnig eftir afstöðu stjórnvalda. Samtökin ítrekuðu erindi sitt í janúar sl. til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Steingríms J. Sigfússonar.